Bergur-Huginn ehf. hefur lagt fram kæru til matvælaráðuneytisins vegna ákvörðunar Fiskistofu um að svipta togara félagsins Vestmannaey VE-54 leyfi til að veiða í tvær vikur í byrjun næsta árs fyrir vigtunarbrot. Fréttavefurinn mbl.is greinir frá.
Fram kemur í umfjölluninni að útgerðarfélagið krefjist þess að ákvörðun Fiskistofu verði ógilt en að öðrum kosti að fresta refsingunni á meðan matvælaráðuneytið hefur kæruna til meðferðar. „Svipting leyfa til veiða er þungbær refsing,“ segir í kærunni, sérstaklega í ljósi þess að um stuttan fyrirvara er að ræða. Sviptingin mun taka í gildi rúmum mánuði eftir að kæran var gefin út.
Bergur-Huginn telur ekki neinn ásetning hafa legið að baki þess að bílstjóri á vegum Eimskips hafi ekið á brott með rúm tíu tonn af ýsu heldur hafi verið um mannleg mistök að ræða sem leiddi til þess að bílstjórinn fór ekki á bílvog og fékk ekki vigtunarnótu. Í ákvörðun Fiskistofu segir það hins vegar ekki skipta máli þar sem ábyrgðin á því að afli sé vigtaður á herðum skipstjóra.
Telur Bergur-Huginn að Fiskistofa hafi ekki útskýrt með fullnægjandi hætti hvernig viðvera skipstjóra og áhafnarmeðlima hefði getað komið í veg fyrir atburðarásina sem leiddi til mannlegra mistaka sem ökumaður Eimskipa gerðist sekur um. Telur félagið einnig að meðalhófs hafi ekki verið gætt í ákvörðun Fiskistofu og að stofnunin hafi með engu móti sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti, „m.a. með því að hafa ekki rætt við þá starfsmenn félagsins sem viðstaddir voru viktunina.“