Komust einfaldlega að réttri niðurstöðu

Viðbrögð Sigurgeirs B. Kristgeirssonar, framkvæmdastjóra VSV, við tíðindum dagsins:

„Kjarni þessa máls er sá að við lifum í réttarríki og gott er til þess að vita. Það er skýr niðurstaða dómsins að ríkið verði að fara að lögum. Ríkisvaldið færði öðrum fyrirtækjum makrílkvóta en þeim sem lög kváðu á um. Brotaviljinn var einbeittur í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur með Jón Bjarnason sem sjávarútvegsráðherra. Þessu var fram haldið síðar, þá með Kristján Þór Júlíusson sem sjávarútvegsráðherra.

Við vöruðum stjórnvöld ítrekað og alvarlega við og bentum á að þessi stjórnsýsla, reglugerðir sem byggðust á geðþótta ráðherra, stæðust ekki lög. Héraðsdómurinn staðfestir að við höfðum á réttu að standa en stjórnvöld ekki. Sama hve margir stjórnmálamenn og aðrir koma nú fram á völlinn og útmála OKKUR syndaselina í málinu! Lögbrotin áttu sér ekki stað í sjávarútvegsfyrirtækjunum heldur í sjálfu Stjórnarráði Íslands. Höldum því til haga.

Svo vil ég rifja upp að uppsjávarfyrirtækin í Vestmannaeyjum og á Austfjörðum höfðu frumkvæði að því að veiða og vinna makríl. Framkvæmdastjóri Hugins fjallaði um það á ráðstefnu í Reykjavík fyrir nokkrum árum að fyrirtækið hefði varið fúlgum fjár í að ná tökum á að veiða og vinna makrílinn. Ríkið var ekki á því að styrkja þá tilraunastarfsemi á nokkurn hátt.

Ég hef reiknað út að þessi frumkvöðlastarfsemi hafi frá upphafi skilað um 300 milljörðum króna í íslenskt þjóðbú. Út frá skattaspori Vinnslustöðvarinnar má ætla að

      • liðlega 100 milljarðar króna hafi runnið til ríkisins, sveitarfélaga og lífeyrissjóða.
      • um það bil 80 milljarðar króna hafi endað í vösum launafólks, aðallega í sjávarútvegi.
      • 30-40 milljarðar króna hafi runnið til sjávarútvegsfyrirtækjanna sjálfra, fjármunir sem hafa auðvitað verið notaðir að miklu leyti til fjárfestinga til sjós og lands.

Dómararnir komust einfaldlega að réttri niðurstöðu í makrílmálinu. Ég geri ráð fyrir að ríkið áfrýi dómnum og við munum að sjálfsögðu sækja áfram okkar rétt en una auðvitað þeim niðurstöðum sem æðri dómstig komast að, hverjar sem þær verða.

Ef Vinnslustöðin hefði verið fundin sek um skattsvik og verið dæmd fyrir athæfið – hefði ríkið þá ekki sent okkur reikning með dráttarvöxtum og gengið hart eftir því að fyrirtækið bætti sér skaðann? Að sjálfsögðu!

Ríkið á að sama skapi að taka afleiðingum af því þegar það fer sjálft á svig við landslög.“

Sjá nánar á vsv.is

 

 

 

Nýjustu fréttir

Foreldrar Elliða stolt á leið til Danmerkur
Dýpi ekki nægjanlegt í Landeyjahöfn — Herjólfur fer til Þorlákshafnar
Sigurmark ÍBV kom í blálokin gegn Fram
Andlát: Þórunn Pálsdóttir
Mílan Jezdimirovic skrifar undir samning við ÍBV
Aukum loðnuveiðar
Eyjagöng gera samninga um jarðfræðirannsóknir
Kristmundur Axel meðal listamanna á Hljómey
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.