Kveikjum neistann í GRV - Málþing í dag

Verkefni sem vakið hefur athygli víða um heim

Síðasta haust fór af stað í fyrsta bekk í Grunn­skóla Vest­manna­eyja (GRV) þró­un­ar­verk­efnið  „Kveikj­um neist­ann!“. Eitt af grunnmark­miðum þess er að efla nem­end­ur í lestr­ar­færni og al­mennri grunn­færni í skóla. Verk­efnið er viðamikið og marg­ir koma þar að en Her­mund­ur Sig­munds­son, prófessor leiðir það í sam­vinnu við skóla­sam­fé­lagið í Vest­manna­eyj­um og fjölmarga aðra. Árangur eftir fyrsta árið er mjög athyglisverður og framfarir nemenda gefa góðar vonir um framhaldið. Neistinn mun lifa með þeim út grunnskólann og verður gaman að sjá hvernig til tekst þegar upp verður staðið eftir tíu ára nám.

Á morgun verður málþing í Safnahúsi frá klukkan 11.00 til 14.00 þar sem árangurinn verður skoðaður. Lofar hann góðu. Voru framfarir nemenda ótrúlega miklar þegar upp var staðið í vor. „Málþingið er hugmynd Kára Bjarnasonar, forstöðumanns Bókasafnsins og Safnahúss. Fannst honum ástæða til að taka stöðuna eftir fyrsta árið og við ætlum okkur að gera þetta að árlegum viðburði ef vel til tekst,“ segir Hermundur sem er meðal fyrirlesara á málþinginu.

Byggir á viðurkenndum vísindum

„Hugmyndafræðin á bak við Kveikjum neistann! byggir á viðurkenndum vísindum. Lykilkenningar eru: Ericcson, markviss þjálfun, Csikszentmihalyi, áskoranir miðað við færni og Dweck, grósku hugarfar. Það er að segja að hvert barn fær verkefni við hæfi, eða einstaklingsmiðaða kennslu og ödlist trú á grósku. Það er grunnur þess að öðlast það sem á ensku kallast „mastery“: ÉG GET!“ segir Hermundur.

Skipulagi skóladagsins er jafnframt breytt. Fyrir hádegi er áherslan á hreyfingu, eru leikfimtímar 72 fleiri yfir skólaárið en í öðrum skólum. Þá er einnig lögð áhersla á grunnfærni. Eftir hádegi vinna börnin að verkefnum sem miðast við færni hvers og eins. Það er lykillinn að árangri að mati Hermundar.

Hermundur segir að boltinn hafi byrjað að rúlla eftir að Tryggvi Hjaltason hafði samband við hann. „Það varð til þess að ég talaði við Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra og Önnu Rós Hallgrímsdóttur, skólastjóra GRV sem strax voru til í slaginn. Aðrir sem koma að verkinu eru Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar, HÍ, Samtök atvinnulífsins,  Háskóli Íslands, Menntavísindasvið og Bókasafn Vestmanneyja,“ segir Hermundur og er ánægður með árangur fyrsta ársins.

Martækur munur

„Marktækur munur er á milli nemenda sem byrjuðu í fyrsta bekk haustið 2021, þegar Neistinn var kveiktur og þeirra sem byrjuðu árið á undan. Á það við um hvernig krökkunum líður í skólanum. Einnig er árangurinn mjög góður í lestri, en í byrjun skólárs gátu 8,3 prósent nemenda lesið samfelldan texta en 88% í lok skólaárs svo dæmi séu tekin.“

„Það er mjög jákvætt að gera rannsóknir til lengri tíma og þróa verkefnið. Það hefur vakið mikla athygli, bæði innanlands og utan og hingað koma  framúrskarandi vísindamenn til að kynna sér það sem við erum að gera,“ sagði Hermundur þegar hann var spurður um framhaldið næstu níu ár.

Ertu bjartsýnn eða svartsýnn hvað lestrargetu barna varðar? „Við þurfum að grípa til aðgerða strax sem byggðar eru á vísindalegum grunni. Staðan hjá okkur er mjög alvarleg en með markvissri þjálfun, eftirfylgni og reglulegu stöðumati er hægt að spyrna frá botni.“

Áhersla á grunnfærni

Er Kveikjum neistann! sú lausn sem þú telur að geti bætt árangurinn nægilega eða þarf að ráðast í enn frekari átak? „Hugmyndafræðin að Kveikjum neistann! byggir á kenningum fremstu fræðimanna. Ég tel að við verðum að leggja mikla áherslu á grunnfærni og ekki síst á lestur sem er undirstaða fyrir allt nám.

Þar kemur hugmyndafræði Kveikjum neistann! mjög sterkt inn. Til að ná árangri verðum við að fá skólastjórnendur, kennara og sveitarstjórnarfólk allt í lið með okkur. Vestmannaeyjar gripu boltann og geta verið fyrirmynd fyrir önnur bæjarfélög,“ sagði Hermundur að endingu.

Málþingið hefst föstudaginn 21. október kl. 11.00 og er öllum opið. Þátttakendur eru hins vegar vinsamlegast beðnir um að skrá sig á málþingið eigi síðar en daginn áður, þ.e. á fimmtudaginn með því að fara á veffangið http://safnahus.vestmannaeyjar.is/page/malthing2022

Jafnframt bendum við á að dagskránni verður streymt á heimasíðu Sagnheima sagnheimar.is og aðgengileg síðar á YouTube-rás Sagnheima.

Mynd:

Hér eru frá vinstri: Svava Þ. Hjaltalín, tröllið Þorsteinn Glúmur, Kári og Hermundur.

Nýjustu fréttir

„Fínasti vertíðarfiskur”
Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Gong slökun, endurstilling í hraða nútímans
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.