Landsnet og Laxey hafa skrifað undir flutningssamning vegna raforkuafhendingar fyrir landeldi í Vestmannaeyjum. Sagt er frá þessu á vefsíðu Landsnets. Þar segir enn fremur að Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður Laxeyjar, hafi heimsótt aðalstöðvar Landsnets til að ræða stöðuna og framtíðina.
Í flutningssamningnum er miðað við 10 MW flutning og er hann gerður til 10 ára að loknum þriggja ára uppkeyrslutíma. Landsnet þarf ekki að fara í fjárfestingu fyrir þessa tengingu þar sem nýttir eru innviðir sem þegar eru til staðar.
Nýju strengirnir, sem teknir voru í rekstur í vikunni, auka afhendingaröryggi til muna og leggja grunn að nýjum tækifærum og betra aðgengi að rafmagni fyrir atvinnulífið í Eyjum.
Undirbúningur á lagningu strengjanna kom í kjölfarið á viljayfirlýsingu Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins, Landsnets, Vestmannaeyjabæjar og fyrirtækja í Vestmannaeyjum, þar sem lýst var yfir vilja til að auka notkun á raforku í þeim tilgangi að flýta orkuskiptum í Vestmannaeyjum í takt við markmið stjórnvalda. Í viljayfirlýsingunni voru aðilar sammála um að markmið lagningar strengjanna myndi nást miðað við þær forsendur að flutningur færðist af skerðanlegum flutningi yfir á forgangsorkuflutning.
Svandís Hlín Karlsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskipta- og kerfisþróunar, segir að það að Laxey hafi bæst í viðskiptavinahópinn hafi verið ein af forsendunum fyrir því að ákveðið var að leggja Vestmannaeyjastreng 5 samhliða Vestmannaeyjastreng 4.
„Við bjóðum Laxey velkomin í hópinn og hlökkum til að eiga gott samstarf við þau í framtíðinni. Það hefur verið mjög gaman að fá tækifæri til að fylgjast með þeirri miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Vestmannaeyjum hjá Laxey. Rekstur eins og þeirra er háður öruggri orku og það er ánægjulegt að með nýju Vestmannaeyjastrengjunum getum við tryggt öruggara rafmagn og meiri flutningsgetu,“ segir Svandís Hlín.
Laxey vinnur að því að þróa og byggja upp landeldi í Viðlagafjöru í Vestmannaeyjum. Í dag er fyrirtækið tengt í gegnum HS Veitur og hefur þegar lokið fyrstu slátrun á laxi.
„Örugg og fyrirsjáanleg raforkuafhending er grundvallarforsenda fyrir landeldi. Samningurinn við Landsnet og styrking flutningskerfisins skiptir sköpum fyrir áframhaldandi uppbyggingu og rekstraröryggi Laxey. Við fögnum þessum áfanga og þeim tækifærum sem það skapar fyrir okkur og aðra atvinnuþróun í Eyjum. Laxey er og verður langstærsti einstaki notandinn á rafmagni í Vestmannaeyjum og mun verða helsta tekjustoð þessara nýju rafstrengja sem nú var verið að taka í notkun. Þessi atvinnuuppbygging eflir því nauðsynlega samfélagsinnviði öllum til hagbóta, bæði atvinnulífi og einstaklingum í Eyjum. Við erum þakklát Landsneti fyrir framsýnina með að fara í þessa mikilvægu fjárfestingu og ekki síst bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum fyrir að leggjast á árarnar með okkur í atvinnulífinu til að tryggja orkuöryggi í framtíðinni og auka þannig notkun á umhverfisvænni, endurnýjanlegri orku,“ segir Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður Laxey.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst