Starfsmaður leikskóla í Vestmannaeyjum hefur verið sendur í leyfi fyrir að hafa slegið til barns. Frá þessu er greint á fréttavef RÚV í dag. Þar segir enn fremur að atvikið hafi átt sér stað í síðustu viku og er til meðferðar hjá deildarstjóra fræðslu- og uppeldismála Vestmannabæjar sem og hjá mannauðsstjóra bæjarins.
Haft er eftir Jóni Péturssyni, framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að hann staðfesti að sviðið hafi fengið upplýsingar um að starfsmaður leikskóla í bænum hafi slegið til barns. Mun starfsmaðurinn hafa verið sendur í leyfi um leið og málið kom upp. Jafnframt segir Jón að málið sé litið mjög alvarlegum augum og að brugðist hafi verið við samkvæmt verkferlum. „Við viljum ekki hafa starfsmenn í þessari stöðu eða börn sem eiga á hættu að svona lagað geti gerst. Við munum skoða þetta mjög vel,“ segir Jón í samtali við RÚV.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst