Á dögunum bauðst Óskari Pétri Friðrikssyni ljósmyndara Eyjafrétta að fara á sjóinn með Kap VE. Kapin er sem kunnugt er á netaveiðum. Óhætt er að segja að Óskar hafi hitt á flottan túr því vel fiskaðist.
„Við lögðum af stað klukkan 05.00 og komum í land kl. 22.15. Við veiddum 154 kör af fiski og þar af voru 36 kör ufsi. Veiðistaðurinn var á Eyjólfsklöpp sem er í um 20 sjómílur vestur af Heimaey. Þetta eru mið sem eyjabátar hafa sótt mikið í gegnum tíðina,” segir Óskar Pétur.
Kristgeir Arnar Ólafsson skipstjóri á Kap var í viðtali við vefsíðu Vinnslustöðvarinnar í síðasta mánuði. Hann sagði þar að vertíðarfiskurinn sé miklu seinna á ferðinni í ár. Hann sagði að það vantaði alveg loðnuna og endurspeglar það niðurstöður stofnmælinga botnfiska á Íslandsmiðum sem Hafrannsóknastofnun mældi í mars. Þar kom fram að magafylli þorsks hafi verið nálægt meðaltali og loðna var rúmlega helmingur af fæðu þorsks af öllum stærðarflokkum. Loðna fannst helst í fæðu þorsks út af Vestfjörðum og Húnaflóa.
Myndasyrpu frá túrnum má sjá hér að neðan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst