Talsverður fjöldi fólks er nú kominn til Vestmannaeyja og búist er við enn fleiri gestum í dag. Í gærkvöldi fór hið árlega húkkaraball fram í góðu veðri. Tveir gistu fangageymslur í nótt vegna ölvunar og fimm minniháttar fíkniefnamál komu upp. Að öðru leyti má segja að nóttin hafi verið fremur róleg.
Lögregla hefur, sem fyrr á Þjóðhátíð, mikinn viðbúnað og eru yfir 30 lögreglumenn að störfum í Eyjum þessa helgi. Fíkniefnaeftirlit er öflugt og lögreglan í Eyjum leggur sérstaka áherslu á að koma í veg fyrir eggvopnaburð ungmenna, eins og borið hefur á á undanförnum mánuðum.
Lögreglan vekur athygli á að þeir sem eru að skemmta sér þessa helgi séu vakandi fyrir umhverfi sínu, stuðla að öryggi í samskiptum, virða mörk og benda á ef einhver sýnir óæskilega hegðun. Þannig getum við stuðlað að góðri skemmtun án hvers konar ofbeldi eða áreitni.
Góða skemmtun.
Mynd: Addi í London.