Lúðrasveit Vestmannaeyja heldur sína árlegu hausttónleika nú um komandi helgi, laugardaginn 8. nóvember kl. 16:00. Tónleikarnir fara fram í Hvítasunnukirkjunni og gengið verður inn Hallarlundsmegin.
Lúðrasveitin hefur starfað óslitið frá stofndegi 22.mars 1939 og hafa hausttónleikarnir verið hluti af starfinu lengur en elstu menn muna. Að geta haldið úti slíku starfi í bæjarfélagi sem okkar er alls ekki sjálfgefið og má þar þakka dyggum stuðningi bæjaryfirvalda, fyrirtækja í Eyjum og einstaklinga í gegn um tíðina. Fyrir þann stuðning erum við afar þakklát, án hans værum við ekki neitt.
Tengt því þá er Lúðrasveitin með styrktarfélagakerfi. Stór hópur fólks greiðir árlega ákveðna upphæð í sjóð Lúðrasveitarinnar. Í dag er styrktarfélagagjaldið 4000 kr. Með því koma styrktarfélagar að því að viðhalda þessu starfi og fá í staðinn ánægjuna af því ásamt miða fyrir tvo á árlegu hausttónleikana okkar. Hægt er að gerast styrktarfélagi Lúðrasveitarinnar með því að senda póst á ludro@ludro.is þess efnis eða með því að hafa samband við formann sveitarinnar Ólaf Þór Snorrason eða stjórnanda Jarl Sigurgeirsson.
Tónleikarnir í ár verða með hefðbundnu sniði. Við höfum ávallt leitast við hafa lagavalið með fjölbreyttu sniði og eina skilyrðið sem við viljum að lögin uppfylli er að það sé skemmtilegt að spila þau. Þannig er prógramm tónleikanna í ár og eigum við von á að ekki verði síður skemmtilegt að hlýða á flutninginn.
Allir eru velkomnir á tónleikana. Aðgangseyrir er 3000 kr. en styrktarmeðlimir framvísa miða sem þeim hefur borist í pósti og gildir fyrir tvo. Við vonumst til að sjá ykkur sem flest á laugardaginn og óskum ykkur góðrar skemmtunar, segir í tilkynningu frá Lúðrasveit Vestmannaeyja.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst