Haustdagskrá Visku 2024 er orðin nokkuð skýr og margt spennandi í boði. Að sögn Minnu Ágústsdóttur, forstöðumanns verða íslenskunámskeiðin á sínum stað og hefjast vikuna 9.-13. september. Kennt er tvisvar í viku og eru þetta 40 stunda námskeið bæði á level 1 og 2.
„Sara Vilbergsdóttir kemur til okkar með námskeið í pappamassagerð sem er tilvalið fyrir alla sem vilja virkja listamanninn í sér og einnig mjög sniðugt fyrir fólk sem starfar með börnum” segir hún og bætir við að námskeiðið sé helgina 14. og 15. september.
„Betri tjáning – örugg framkoma með Sirrý Arnardóttur verður á dagskrá í september. Hún hefur mikla reynslu af námskeiðum af þessu tagi og skrifað fjöldann allan af bókum þessu tengdu.
Góð heilsa – orkan í topp með Þorbjörgu Hafsteinsdóttur verður svo 4. og 5. október en það er námskeið sniðið að konum á aldrinum 35-65 ára og farið er yfir heilsufar kvenna á mismunandi aldursskeiði.
Förðunarnámskeið með Mæju verður einnig á sínum stað þann 12.október en nú ætlar hún að bjóða upp á námskeið fyrir byrjendur. Námskeiðin hennar hafa verið gríðarlega vinsæl síðastliðin ár.”
Einnig ætlum við að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið þar sem fólk fær réttindi til tveggja ára. Eyjamaðurinn Egill Aron Gústafsson ætlar að koma til okkar 5. október.
Á döfinni verða líka stutt og skemmtileg tómstundanámskeið sem eiga eftir að detta inn. Það er gaman að segja frá því að Viska hefur nú farið í samstarf við Fisktækniskóla íslands þar sem boðið verður upp á nám í Fiskeldistækni á framhaldsskólastigi.
Í fyrsta skipti verður síðan haldin karlaráðstefnan Skjöldur þann 19. október. Metnaðarfull og skemmtileg dagskrá er nú tilbúin og byrja skráningar í byrjun september. Kvennaráðstefnan hefur nú fest sig í sessi og gaman að gera slíkt hið sama fyrir drengina okkar” segir Minna og bendir á að allar skráningar fari fram í gegnum heimasíðu Visku – viskave.is og fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband í tölvupósti á netfangið viska@viskave.is.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst