Um áramót – Helga Jóhanna Harðardóttir – Bæjarfulltrúi Eyjalistans
Það er margt spennandi sem hefur átt sér stað á árinu hjá bænum. Það hafa kollegar mínir í bæjarstjórn bent á hér í greinum á undan mér, en ég ætla að verða við beiðni Eyjafrétta og koma með nokkra punkta. Nú hafa nýir rafstrengir verið lagðir, sem var nauðsynleg aðgerð fyrir okkur í Eyjum til þess að tryggja betur afhendingaröryggi raforku. Það sem því miður fylgir er hærra orkuverð fyrir suma stórnotendur. Það er slæmt þegar staðan er orðin þannig að stórnotendur fara að nota olíu í stað rafmagns vegna þess að hún er margfalt ódýrari. Það er einfaldlega eitthvað mjög rangt við það, ekki síst þegar horft er til umhverfisþátta. Við þessu þarf ríkið að bregðast.
Árið hefur einmitt kannski einna helst einkennst af því að bæjarstjórn hefur lagt mikla vinnu í hagsmunamál okkar Eyjamanna. Þar má helst nefna almannavarnarvatnslögnina NSL-4, sem stefnt er að því að leggja í ágúst á þessu ári. Undirbúningur og vinna við lögnina hefur verið mikil, einkum hjá þeim bæjarfulltrúum sem tóku að sér að sitja í vinnuhópi um vatnsmálin, og kann ég þeim miklar þakkir fyrir gríðarlega mikla vinnu. Það hefur komið fram hér áður að lögnin sjálf er mjög dýr og þar þurfum við að herja á ríkið að standa undir kostnaði hennar.
Bæjarstjórn öll hefur staðið þétt saman þegar kemur að hagsmunagæslu og eru málin því miður frekar mörg sem við þurfum sífellt að minna á og berjast fyrir. Það er ekki bara vatn og rafmagn heldur einnig samgöngur, sjúkraflug, hjúkrunarheimili, framhaldsskólinn okkar og heilbrigðisþjónusta.
Á árinu var klárað að leggja gervigras á Hásteinsvöll og hefur verið afar ánægjulegt að sjá hversu mikið hefur verið hægt að nýta völlinn yfir vetrartímann, sem ekki var mögulegt áður. Nú hafa yngri flokkarnir meðal annars tekið þátt í móti undanfarið þar sem áður þurfti ætíð að ferðast upp á land yfir veturinn til að keppa á keppnisvöllum að fullri stærð. Nú þurfa þau ekki að ferðast eins oft, geta keppt heima, auk þess að spila æfingaleiki, sem skiptir miklu máli. Þetta verður enn betra þegar lýsingu á völlinn verður lokið á árinu.
Endurbætur eru hafnar í íþróttahúsinu og verður ánægjulegt að sjá þegar viðbyggingin, sem nú er í framkvæmd, verður fullgerð. Unnið er að endurbótum í sundlauginni og verður mikil gleði hjá sundköppum Eyjanna þegar hún opnar aftur.
Ég er mikill talsmaður betra aðgengis og því mjög ánægð með þær umbætur sem hafnar eru í tónlistarskólanum með nýjum inngangi og lyftu. Þar sem ég er að ræða endurbætur vil ég einnig nefna að mikið var unnið í skólahúsnæðum bæjarins og þurfum við að halda áfram á þeirri braut. Það er mikilvægt að halda eignum bæjarins við og tel ég að við séum að einhverju leyti að súpa seyðið af því að því hafi ekki verið sinnt nægilega vel á síðustu áratugum.
Ég fylltist meiri von yfir þeirri framtíðarsýn að hér gætu einhvern tímann komið göng til Eyja með stofnun Eyjagangnafélagsins. Ég er virkilega spennt að sjá þann eldmóð sem þar ríkir og hef trú á því að með þeirra vinnuframlagi og þrautseigju fáum við göngin til okkar á endanum. Rannsóknir eiga að hefjast á árinu og verður afar fróðlegt að sjá niðurstöður þeirra og fá úr því skorið hvort þetta geti orðið að veruleika. Ég hvet bæjarbúa til þess að mæta á kynningarfundinn hjá þeim í Höllinni þann 15. janúar.
Áfram er unnið af krafti að menntarannsókninni Kveikjum neistann og er fimmta árið nú hafið. Mikill árangur hefur náðst í fræðslu- og menntamálum og hefur það vakið athygli víða um land. Sveitarfélagið ætlar að halda áfram á þeirri vegferð.
Sveitarfélagið er í örum vexti og má þar meðal annars þakka mikinn vöxt í atvinnulífinu með tilkomu Laxeyjar. Það er aðdáunarvert að sjá hversu hratt fyrirtækið vex og þróast. Þar sem íbúum fjölgar hefur bærinn meðal annars mætt biðlistum á leikskólum með því að opna nýjar deildir. Nú á árinu ætlum við einnig að hefjast handa við hönnun á nýjum leikskóla.
Á árinu breytti ég sjálf um setu í ráði og fór úr fjölskyldu- og tómstundaráði yfir í framkvæmda- og hafnarráð. Það hefur verið mjög lærdómsríkt að breyta til og sökkva sér meira ofan í önnur mál en fjölskyldu- og tómstundamál. Á hafnarsvæðinu er nóg um að vera. Á árinu létum við vinna skýrslu um innviðauppbyggingu hafnarinnar sem við getum nýtt okkur í áframhaldandi skipulagi, meðal annars vegna stórskipakants sem löngu er orðið tímabært að hefjast handa við. Gjábakki er langt kominn og verður Hörgeyrargarður styttur svo stærri skip geti komið inn. Hafnarsvæðið er sífellt að verða snyrtilegra og fallegra og verður lokið við að setja upp svið við Vigtartorg. Það svæði er orðið mikil bæjarprýði og vel nýtt af bæði íbúum og ferðafólki.
Þessi grein er farin að verða í lengri kantinum og greinilegt að maður þarf að vera duglegri að setjast niður og skrifa nokkur orð reglulega. Það er margt fleira á döfinni og þessi upptalning er alls ekki tæmandi. Næstu mánuðir verða spennandi þar sem sveitarstjórnarkosningar eru fram undan og nú þarf ég virkilega að leggjast undir feld og ákveða hvort ég gefi aftur kost á mér. Ég viðurkenni að mér finnst þetta erfið ákvörðun, enda þótt starfið sé oft gefandi, skemmtilegt og ánægjulegt og veiti tækifæri til að hafa áhrif í bænum. Þetta er þó mikil vinna og hefur stundum áhrif á aðra vinnu sem og fjölskyldulífið, en ég er heppin að njóta mikils skilnings hjá yfirmönnum mínum og fjölskyldunni. Eitt er víst að það verður forvitnilegt að sjá hverjir gefa kost á sér í sveitarstjórnarmálum á næstu mánuðum og hvet ég alla sem hafa áhuga til að bjóða sig fram, því þetta fer sannarlega í reynslubankann og maður lærir ótrúlega margt af því að taka þátt.
Skrifað að beiðni Eyjafrétta sem fengu nokkra menn og konur til að líta yfir liðið ár og fram á veginn.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst