Ný og endurbætt verslun Miðstöðvarinnar býður upp á mikið úrval þjóðhátíðarvara. Allt frá gömlu góðu Thermos brúsunum og nammi fyrir börnin, yfir í teppi í tjöldin og kælibox á hjólum fást í versluninni.
„Það er búið að vera nóg að gera, sérstaklega í málningunni. Svo erum við selja dúkana í tjaldið og plastið í loftið, nóg af því,“ segir Emelía Ögn Bjarnadóttir, afgreiðslukona, sem nefnir líka sívinsælu brekkustólana og regnfötin frá merkinu Snickers sem hafa verið að slá í gegn.
Brekkustólarnir heitustu lummurnar
Styrmir Jóhannsson verslunarmaður segir brekkustólana seljast eins og heitar lummur og grínast með að kæliboxin, sem fást í öllum stærðum, gætu sum hver rúmað lík af manni. Þá er líka að finna lugtir í tjaldið, heyrnarskjól fyrir börn, gasgrill sem tilvalin eru til notkunar á tjaldsvæði, og tjaldhæla í búðinni.
Mælir þú með einhverju sérstöku? „Peysunum og bucket hats. Við tókum hattana sérstaklega inn fyrir Þjóðhátíðina. Þú veist hvað bucket hats eru? Þeir eru geggjað töff, sko“ segir Styrmir sem ætlar að sporta slíkum hatti um helgina.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst