Minningargrein: Óskar Þór Hauksson

Vinnudagurinn 26. janúar síðastliðinn byrjaði afar óþægilega hjá okkur í Vinnslustöðinni, þegar samstarfsmaður okkar, Óskar Þór, var sóttur, veikur, af sjúkrabíl á vinnustaðinn. Öll vonuðum við auðvitað, að hann myndi ná sér fljótt og vel og áttum í raun ekki von á öðru. Það var því mikið áfall að fá fréttirnar af andláti Óskars, aðeins um tveimur vikur síðar. Skammvinn, en illvíg veikindi höfðu bundið enda á líf hans, sem enn var ungur og hraustur.

Sumir láta mikið fyrir sér fara í lífinu, sópa að sér athygli, eignum eða öðru. Það er þó ekki endilega það sem skiptir máli þegar á hólminn er komið, aðrir, sem minna fer fyrir, skilja oft meira eftir sig.

Óskar Þór varði stærstum hluta síns starfsferils hjá Vinnslustöðinni, við fiskvinnslustörf. Sjálfur þekkti ég Óskar frá því við vorum börn, enda báðir frá Eyjum, á sama aldri. Ég kynntist honum þó betur eftir að ég kom í Vinnslustöðina, fyrir um áratug síðan. Þá hafði hann þegar starfað þar lengi og var alla tíð lykilmaður í því sem hann kom að. Óskar hafði reynsluna, vissi alltaf hvernig átti að vinna verkin, leysa úr vandamálum og hvað þurfti að passa. En umfram allt, þá sinnti hann starfi sínu af yfirvegun og öryggi.

Óskar var hæglátur og tafði engan með kjaftagangi, en það var samt alltaf gott að hitta hann, skiptast á fáeinum orðum og láta það bara nægja, létt spjall. Það var hans nálgun á tilveruna – Ekkert óþarfa kjaftæði eða vesen. En þessi hægláti maður gat líka verið ákveðinn þegar þurfti að láta hlutina ganga í vinnunni og tók verkin föstum tökum, um leið og hann fékk samstarfsfólk með sér í að leysa þau.

Á vinnustað okkar erum við mörg, af ýmsu þjóðernum og ólík á annan hátt. Þá er mikilvægt að við getum aðlagast hvert öðru og unnið saman að markmiðum okkar. Þetta gerði Óskar, vann sitt, leiðbeindi öðrum og sá til þess að málin gengu upp.

Nú, þegar Óskar er skyndilega farinn, finnum við, samstarfsfólk hans, verulega fyrir því og sjáum hve stórt skarð er skilið eftir af manni sem svo lítið fór þó fyrir.

Við sem störfuðum með Óskari í, Vinnslustöðinni, sendum aðstandendum hans, okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Sverrir Haraldsson

Nýjustu fréttir

Í dag eru 75 ár frá Glitfaxaslysinu
Hárígræðslur í Tyrklandi 
Húsið of hátt – skipulagi breytt eftir á og nágrannar ósáttir
Elliði fyrir leikinn gegn Dönum
Spáð í spilin fyrir stórleikinn í kvöld á EM
Tíðarandi liðinna ára í myndum í Sagnheimum
Handbolti, loðnukvóti og prófkjör
Áskorun til Vestmannaeyinga 
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.