Í dag lýkur sjávarútvegssýningunni Seafood Expo. Sýningin, sem hefur staðið yfir síðan á þriðjudag er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Sýningin var lengst af haldin í Brussel í Belgíu en var færð yfir til Barcelona og er sýningin í ár haldin í fjórða sinn á Spáni. Vinnslustöðin var venju samkvæmt með bás á sýningunni og tók þar á móti viðskiptavinum og gestum víðsvegar að úr heiminum.
„Við erum sennilega að tala um flestar heimsóknir á básinn hjá okkur til þessa. Allir voru áhyggjufullir út af áhrifum tolla í Bandaríkjunum og hvað Trump gerði næst. Sérstaklega urðum við vör við þetta hjá asískum viðskiptavinum okkar,” segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson (Binni), framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í samtali við Vinnslustöðvar-vefinn.
Hann segir jafnframt að ekki hafi verið margir Bandaríkjamenn á sýningunni. „Þeir hafa miklar áhyggjur af því hvað gerist þann 6. júlí, þegar hækkun tollanna tekur gildi. Hækkun þá getur bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á viðskipti okkar til að byrja með en þegar til lengdar láti þá munu áhrifin vera neikvæð. Við erum þannig sammála hagfræðingum Seðlabanka Bandaríkjanna.”
Björn Matthíasson rekstrarstjóri VSV Seafood Iceland hefur yfirumsjón með bás félagsins á sýningunni. „Ég tek undir með Binna að þetta er búin að vera mjög góð sýning sem er að enda í dag og er búin að standa yfir síðan á þriðjudag. Þetta er einnig mjög mikilvægur tími fyrir VSV hópinn því þetta er eina skiptið á árinu þar sem við eigum möguleika á að ná öllum saman sem tengjast sölu því það eru jú fyrirtæki sem eru staðsett víðsvegar um heiminn og svo forsvarsmönnum allra framleiðslufyrirtækja/deilda VSV.
Básinn okkar á sýningunni var afskaplega vel nýttur og margir sem lögðu leið sína til okkar. Þetta er mjög mikilvægur vettvangur fyrir okkur til að „liðka“ fyrir þeim viðskiptum sem fyrir eru ásamt því að stofna til nýrra. Sýningin var sem áður gríðarstór. Sýningasvæðið er yfir 50.000 M2 og sýnendur rúmlega 2.100 talsins frá 87 löndum,” segir Björn að endingu. Fleiri myndir frá sýningunni má sjá hér.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst