Stefnt er að því að stofna hlutafélag um innflutning á nýjum kúastofni í næsta mánuði. Jón Gíslason, formaður Nautgriparæktarfélags Íslands (NRFÍ), sem barist hefur fyrir innflutningi á norskum kúastofni til Íslands, segir að hið nýja hlutafélag muni sækja um innflutningsleyfi til Landbúnaðarráðuneytisins á næstu mánuðum. „Við stefnum að því að sækja um innflutningsleyfi á fósturvísum og sæði úr norska kúastofninum. Ráðuneytið mun þá leita álits hjá umsagnaraðilum eins og yfirdýralækni og fleiri aðilum.“