Lettneska knattspyrnukonan Olga Sevcova hefur ákveðið að framlengja dvöl sína í Vestmannaeyjum um eitt ár í það minnsta og halda áfram að spila með ÍBV. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins.
Þegar Olga kom fyrst til landsins og gekk í raðir ÍBV árið 2020 þá gerði hún samning út það keppnistímabil, fáir hefðu því giskað á að hún væri enn hjá félaginu nú 5 árum seinna að framlengja samning sinn.
Olga er löngu orðin þekkt í Vestmannaeyjum og á Íslandi fyrir gæðin sem hún býr yfir og sýnir inni á fótboltavellinum. Þessi 33 ára knattspyrnukona hefur nú flutt fjölskyldu sína til Eyja og eru þau orðin fyrir löngu hluti af ÍBV-fjölskyldunni í Vestmannaeyjum.
Hún hefur leikið við góðan orðstír allt frá komu hennar til landsins en auk þess að leika með ÍBV lék hún í nokkra mánuði á láni hjá Fenerbahce og leikur reglulega með lettneska landsliðinu þar sem hún hefur 8 sinnum verið valin leikmaður ársins.
Í ár hefur Olga verið einn besti leikmaður Lengjudeildar kvenna en hún hefur skorað 14 mörk í 17 leikjum, auk þriggja marka í Mjólkurbikarnum. Þá hefur Olga einnig komið að öðrum tíu mörkum.
Knattspyrnuráð er ánægt með að Olga hafi valið að leika með ÍBV áfram á næstu leiktíð, segir í tilkynningunni frá ÍBV.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst