Á þingfundi í dag var á dagskrá óundirbúin fyrirspurn um stöðu samgangna til Vestmannaeyja, þar sem Karl Gauti Hjaltason spurði Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra hvernig ríkið hyggist tryggja öruggar og reglulegar ferðir milli lands og Eyja.
Karl Gauti lýsti þar stöðu ferða milli lands og Eyja og sagði að nú sé svo komið að samgöngur til Vestmannaeyja séu komnar í harðan hnút. „Breiðafjarðarferjan Baldur leysir Herjólf af á meðan skipið er í slipp, en sú ferja er 35 ára gömul og ekki byggð fyrir þetta hafsvæði.“
Hann benti á að sjólag hefði valdið því að Baldur hafi þurft að sigla til Þorlákshafnar og einungis tvær ferðir náist á dag, í stað sjö ferða til Landeyjahafnar. Þá sé ekkert áætlunarflug til Eyja og íbúar þurfi að fara heim tveimur til þremur dögum fyrr til að sinna læknisferðum eða öðrum erindum á landi.
„Mikil áhrif eru á atvinnulíf og ferðamannaiðnað í Vestmannaeyjum. Þetta samgöngurof svo snemma hausts smitar inn í allan veturinn,“ sagði þingmaðurinn.
Innviðaráðherra, Eyjólfur Ármannsson, sagði að ástandið væri ekki eins slæmt og því væri haldið fram og að nýr Baldur væri kominn í þjónustu. „Þetta skip hefur ekki staðal til að geta verið í úthafssiglingum að vetri til á þessu hafsvæði, en verið er að vinna í því.“ Þá sagði ráðherra orðrétt: „Núverandi ástand í samgöngum til Vestmannaeyja tel ég bara vera að mörgu leyti mjög gott.”
Hann benti á að Herjólfur III væri bundinn við bryggju sem kostaði um 150 milljónir á ári, og að umfangsmiklar og dýrar framkvæmdir við Landeyjahöfn, þar með talið varnargarð, væru til skoðunar.
Karl Gauti minnti ráðherra á samþykkta þingsályktunartillögu fyrir fimm árum um þetta mál. „Hún [höfnin] er ekki að þjóna tilgangi sínum. Það þarf að laga hana og það þarf að komast að niðurstöðu um hvernig eigi að gera það og hvernig eigi að koma samgöngum til Vestmannaeyja í lag.“
Hann spurði einnig um flugferðir. „Hyggst ráðherra koma til móts við óskir Eyjamanna um að lengja tímabilið með tilliti til þess að nú eru rúmir tveir mánuðir þar til flug hefst og einnig hvort ráðherra hyggst fjölga vikulegum ferðum?“
Ráðherra svaraði að tímabundið flug væri í boði samkvæmt samningi við Mýflug og að mögulegt væri að lengja flugferðir eða nota rafflugvélar í framtíðinni:
„Meira að segja gæti komið til greina að það yrðu rafflugvélar sem myndu sinna þessu flugi í framtíðinni. Ég mun mæla fyrir samgönguáætlun í lok október eða byrjun nóvember og þar mun koma kafli sem lýtur að flugi innanlands.“
Þrátt fyrir að ráðherra telji núverandi samgöngur að mörgu leyti góðar, undirstrikaði Karl Gauti mikilvægi þess að tryggja áreiðanlegar og reglulegar ferðir til Vestmannaeyja, til hagsbóta fyrir íbúa, atvinnulíf og ferðamennsku.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst