Eyjólfur Ármannssson, innviðaráðherra hefur svarað fyrirspurn frá Gísla Stefánssyni, varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins um samgöngur milli lands og Vestmannaeyja.
Gísli spurði annars vegar hvort ráðherra hyggist tryggja fjármagn á þessu ári sem þarf til að hefja rannsóknir á jarðlögum í Vestmannaeyjum í samræmi við ráðleggingar starfshóps um fýsileika jarðganga milli lands og Vestmannaeyja.
Í svari ráðherra segir að fjármögnun vegna fyrsta áfanga rannsóknar á fýsileika Vestmannaeyjaganga sé ekki á gildandi samgönguáætlun. „Tekin verður afstaða til verkefnisins í samhengi við aðrar jarðgangaframkvæmdir í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun sem lögð verður fram í haust.”
Einnig spurði Gísli hvaða leiðir ráðherra hyggist ráðast í til að gera Landeyjahöfn að þeirri heilsárshöfn sem lagt var upp með þegar höfnin var upphaflega tekin í notkun til ferjusiglinga milli lands og Eyja.
Eyjólfur segir í svari sínu að unnið sé að rannsóknarverkefni hjá hafnadeild Vegagerðarinnar með Dansk Hydraulisk Institut (DHI) þar sem markmiðið sé að bæta nýtingu Landeyjahafnar með nýjum mannvirkjum, hugsanlega nýjum ytri görðum. DHI er danskur hugbúnaðarframleiðandi og ráðgjafarverkfræðistofa sem sérhæfir sig í vatna- og straumfræðilíkanagerð og sandburði.
„Verkefnið hófst í maí 2024 og DHI skilaði fyrstu áfangaskýrslu rannsókna sinna 20. maí sl. Í henni er sett upp líkan af höfninni sem líkir eftir atburðum þegar mikill sandburður er við höfnina og gerir Vegagerðinni kleift að keyra hermanir þar sem nýjum mannvirkjum hefur verið komið fyrir. Með því móti má sjá hvaða afleiðingar mannvirkin hafa og hvort þau leiða til æskilegrar niðurstöðu eða ekki.
Í þessum hermunum verður skoðuð gerð ytri garða, lenging núverandi garða eða bygging sandfangara beggja vegna hafnarinnar. Einnig verður færsla á leiðigörðum Markarfljóts skoðuð í líkaninu til að kanna hvort það leiði til minni sandburðar inn í höfnina. Bráðabirgðahermanir taka nokkrar vikur hver en reiknað er með fyrstu niðurstöðum úr hermunum í haust. Í kjölfar þeirra verður ákveðið hvaða sviðsmyndir eru vænlegar til nánari skoðunar en gert er ráð fyrir að heildarvinnan taki allt að þrjú ár,” segir í svari innviðaráðherra.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst