Í fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í síðustu viku gerði Páll Magnússon grein fyrir stöðu mála varðandi listaverk Ólafs Elíassonar. Fór hann yfir íbúafundinn sem haldinn var í Eldheimum í mars þar sem listamaðurinn kynnti útlit listaverksins og inntak auk þess sem að Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt, fór yfir það sem snýr að göngustígnum, legu hans og efnisvali. Skýrt hafi komið fram að allar framkvæmdir í tengslum við verkefnið verði afturkræfar og skilji ekki eftir nein varanleg ummerki á ásýnd Eldfells.
Þá gerði Páll grein fyrir ákvörðun atvinnuvegaráðherra að styrkja gerð göngustígsins um 60 milljónir króna og samningi sem bæjarstjóri hefur undirritað þar að lútandi.
Í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um málið segir að þau styðji í grunninn hugmyndina um minnisvarða vegna Heimaeyjargossins, enda hefur slík menningaruppbygging mikið gildi.
„Hins vegar er það alvarlegt að kostnaður við göngustígagerð í Eldfelli, fer langt fram úr því sem eðlilegt má teljast í ljósi fjárhagsstöðu bæjarins. Meirihluti bæjarstjórnar hefur fullyrt að kostnaður Vestmannaeyjabæjar vegna minnisvarðans verði 50 milljónir. En fram hefur komið að heildarkostnaður vegna minnisvarðans muni kosta vel yfir 200 milljónir króna og er þá ótalin önnur vinna, líkt og við vinnslu skipulags, bílastæðagerð og fleira sem tilheyrir framkvæmdinni. Það lá ekki fyrir þegar samþykkt var að veita 50 milljónir til minnisvarðans á sínum tíma.
Núverandi meirihluti sem fyrir síðustu og þar síðustu sveitarstjórnarkosningar stærði sig af því að ætla að hafa íbúalýðræði í hávegum, hefur sannarlega sýnt að það er einungis í orði en ekki á borði en undirskriftarlisti gegn listaverkinu sem telur um 600 nöfn er nákvæmlega í engu hafður,” segir í bokun minnihlutans.
Í bókun bæjarfulltrúa E og H lista segir að það sé fagnaðarefni að nú á síðustu vikum hafi verið stigin þrjú mikilvæg skref sem snúa að listaverki Ólafs Elíassonar.
„Í fyrsta lagi var haldinn afar vel heppnaður íbúafundar þar sem listamaðurinn og Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt, gerðu grein fyrir verkefninu í heild sinni; útliti þess og inntaki. Þar kom m.a. fram með vel rökstuddum og skýrum hætti að framkvæmdirnar í heild sinni fela ekki í sér neinar varanlegar eða óafturkræfar raskanir á ásýnd Eldfells.
Í öðru lagi var nú í byrjun maí kynnt sú ákvörðun atvinnuvegaráðherra að styrkja gerð göngustígsins sérstaklega um 60 milljónir króna. Í þriðja lagi mun á þessum bæjarstjórnarfundi endanlega verða lokið skipulagsþætti málsins hvað varðar breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi. Nú er því ekkert til fyrirstöðu lengur að halda áfram með verkefnið af fullum krafti og því ber að fagna.
Enn einu sinni eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að reyna að rugla umræðuna. Meirihlutinn ætlar ekki að láta toga sig inn í þessa upplýsingaóreiðu sem þau eru að reyna að búa til,” segir í bókun meirihlutans.
Hér má horfa á upptöku frá fundinum. Ofangreint mál var 1. mál á dagskrá. Umræðan hefst á 5. mínútu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst