Arion banki og Laxey hafa undirritað samning um fjármögnun. Samstarf félaganna mun styðja við áform Laxey um að starfrækja fiskeldisstöð á landi í Vestmannaeyjum.
Samkomulagið er mikilvægur þáttur í langtímarekstri Laxey og styður við áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins. Samstarfið undirstrikar skuldbindingu Laxey til uppbyggingar fiskeldis í Vestmannaeyjum með sjálfbærni- og umhverfissjónarmið að leiðarljósi, segir í tilkynningu á heimasíðu Laxeyjar.
„Það er ánægjulegt að undirrita þetta samkomulag við Laxey og styðja þannig við uppbyggingu fiskeldis í Vestmannaeyjum. Arion banki hefur stutt við margvísleg verkefni á sviði fiskeldis víða um land sem nú er orðið mikilvæg atvinnugrein, ekki bara fyrir byggðir víða um land heldur einnig fyrir íslenskt efnahagslíf. Áform Laxey eru metnaðarfull og verður spennandi að fylgjast með þeirri uppbyggingu sem fram undan er.“ er haft eftir Rúnari Magna Jónssyni, forstöðumanni á fyrirtækja- og fjárfestingabankasviði Arion banka.
Lárus Ásgeirsson stjórnarformaður Laxey segir að samstarfið við Arion banka sé stórt skref í átt að því að styrkja starfsemi félagsins. „Með stuðningi Arion banka getum við haldið áfram þeirri leið sem við erum á, byggt upp nýja atvinnugrein í Vestmannaeyjum og haldið áfram að leggja áherslu á umhverfisvænar eldisaðferðir.“
Laxey stefnir á byggingu fiskeldisstöðvar sem getur framleitt 32.000 tonn af laxi á ári. Laxey er með seiðastöð í rekstri í Friðarhöfn sem notast við RAS-kerfi sem hámarkar endurnýtingu á vatni og er fyrsta stöð sinnar tegundar á Íslandi. Áframeldið sem verður á landi mun notast við gegnumstreymiskerfi með um 65% endurnýtingu þar sem hreinum sjó er dælt upp í gegnum stöðina og hreinsaður áður en honum er skilað aftur til sjávar. Með þessu tryggir Laxey bestu skilyrði fyrir vöxt laxa með sjálfbærum hætti.
Samstarf Arion banka og Laxey kemur á tímum þegar fiskeldisiðnaðurinn á Íslandi er í mikilli sókn og styrkir ímynd Íslands sem leiðandi lands í framsæknu og umhverfisvænu fiskeldi, segir að endingu í tilkynningunni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst