Sex þjóðhátíðargestir munu vakna í fangaklefa í Vestmannaeyjum í dag, en þeir voru færðir þangað ýmist vegna líkamsárása, fíkniefnamála eða ölvunar.
Alls hafa 12 fíkniefnamál komið upp í Heimaey frá því að fólk af fasta landinu tók að flykkjast þangað á fimmtudag, þar af eitt mál þar sem talið er að efni hafi verið ætluð til sölu.
„Miðað við fjölda þá held ég að þetta sé nú ekkert stóralvarlegt,“ sagði Tryggvi Kr. Ólafsson lögreglufulltrúi í samtali við mbl.is. Hann segir að þær líkamsárásir sem tilkynntar voru í nótt hafi ekki verið stóralvarlegar, hann hafði hið minnsta ekki heyrt af neinum beinbrotum.
„Það var logn í dalnum og þoka reyndar yfir öllu. Töluverður fjöldi í brekkunni,“ sagði Tryggvi, sem sagði eril hafa verið hjá lögreglu á þessu fyrsta kvöldi Þjóðhátíðar í Herjólfsdal.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst