„Við höfum lokið síldveiðum þetta árið. Veiðin gekk mjög vel og veiddum við eitthvað um 20.000 tonn í heildina. Við vorum á síldarvöktum í tæpan mánuð í norsk-íslensku síldinni, tókum smá hlé og héldum árshátíð,“ sagði Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar um síldveiðarnar í haust.
„Byrjuðum síðan í lok október á íslensku sumargotssíldinni og vorum að klára. Þannig að nú þarf að huga að viðhaldi skipa og vinnslubúnaðar og búa okkur undir komandi loðnuvertíð.“
„Við kláruðum í byrjun október tæplega 17.000 tonn af norsk íslensku síldinni. Það gekk mjög vel að veiða hana fyrir austan eins og undanfarin ár. Fór síldin að langmestu leyti til frystingar á Þórshöfn og Vestmannaeyjum,“ sagði Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins.
„Við erum búnir að veiða um 3500 tonn af þeim 8500 tonnum af íslensku síldinni sem við ætlum að veiða í haust. Heimaey og Sigurður stunda veiðarnar á íslensku síldinni vestur af Faxaflóa. Veiðin hefur verið frekar róleg og veður ekki verið hagstætt. Nánast öll síldin fer til frystingar hjá okkur. Reiknum með að klára um mánaðarmótin næstu.“
Samtals gera þetta 40.500 tonn og eru 3500 tonn eftir.
Mynd Addi í London:
Stærsti hluti síldarinnar hefur verið frystur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst