Fiska- og Náttúrugripasafninu í Vestmannaeyjum hefur á síðustu dögum borist ungar, annars vegar langvíuungi og hins vegar fyrsta lundapysjan í ár. Safnið hefur tekið ungana tvo í fóstur en starfsmenn safnsins hafa gefið fuglunum nöfn. Þannig heitir langvíuunginn Eiður Aron, í höfuðið á Eiði Aroni Sigurbjörnssyni sem spilaði með ÍBV í sumar þar til hann hélt í atvinnumennskuna í Svíþjóð. Lundapysjan kom á safnið um helgina en í gær skoraði Þórarinn Ingi Valdimarsson sigurmark ÍBV gegn Keflavík. Pysjan fékk því nafnið Þórarinn Ingi.