Þegar ég opnaði Fréttir eftir að þær duttu inn um lúguna hjá mér á miðvikudagskvöldið leist mér hreint ekkert á að lesa grein eftir framámanninn Magga Kristins, aðra vikuna í röð, þar sem hann finnur áformum um Bakkafjöruhöfn, Landeyjahöfn, allt til foráttu. Hins vegar lifnaði aftur yfir mér þegar Fréttum var flett aðeins lengra og við mér blasti viðtal við alþingismennina okkar, Árna og Lúðvík þar sem þeir tala einum rómi um mikilvægi stórskipahafnar í Vestmannaeyjum og að haldið verði fast við áform um ferjusiglingar á milli Eyja og væntanlegrar Landeyjahafnar. Það sem færði brosið enn betur á mig var greinin hans Viðars Togga, því við Viðar erum greinilega alveg sammála um þessi mál.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst