Uppskriftin að því hvernig lifa á af í tæpa hálf öld í skemmtanabransanum birtist Vestmannaeyingum í Höllinni á laugardagskvöldið þar sem Björgvin Halldórsson, söngvari með meiru og ókrýndur konungur poppsins, var mættur með frábæra sveit tónlistarmanna sem eru hluti af formúlunni. Og hún er: Veldu þér þá bestu til að vinna með, nýttu þér það nýjasta í tækni, berðu virðingu fyrir gestum og því sem fram er borið, leggðu þig fram og hafðu gaman af. Þegar hvert gullkornið af öðru fylgir með, gengur dæmið upp.