Það var þéttsetin gamla öllin við Vestmannabraut í gær þegar Lúðrasveit Vestmannaeyja og Karlakór Vestmannaeyja fluttu Sólarsvítuna eftir Árna Johnsen undir röggsamri stjórn Jarls Sigurgeirssonar, stjórnanda LV.
Tónleikarnir hófust á því að Sara Renee Griffin frumflutti goslokalagið í ár. Aftur heima eftir Björgvin E. Björgvinsson. Gerði hún það listavel og verður spennandi að fá að heyra meira frá henni í framtíðinni.
Þá hélt Páll Zóphaníasson hátíðarræðu í tilefni 45 ára frá goslokum. En hann var bæjartæknifræðingur í Vestmannaeyjum þegar fór að gjósa á Heimaey. Hann hafði tekið við starfi bæjartæknifræðings árið áður og gegndi starfinu til ársins 1976. Þá var hann ráðinn bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og gegndi því embætti til 1982
Karlakórinn og Lúðrasveitin tóku svo sitt hvort lagið áður en að Sólarsvítunni kom. Árni Johnsen höfundur svítunnar fór þá með nokkur orð og var klökkur í máli. Hann sagði Sólarvítuna sitt framlag til tónlistarmenningarinnar í Vestmannaeyjum.
Tónleikarnir voru styrktir af Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga, 100 ára afmæli fullveldisins, Goslokanefnd og Skipalyftunni.
Eins og svo oft áður var Óskar Pétur á staðnum og tók myndir og stutt myndband.
Fyrir þá sem misstu af tónleikunum þá voru þeir í beinni útsendingu á Facebook síðu Lúðrasveitar Vestmannaeyja og má sjá upptökuna hér að neðan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst