Viska undirbýr nú vorönnina 2026 og boðið verður upp á fjölbreytt úrval námskeiða og námsleiða fyrir íbúa. Minna Björk Ágústsdóttir, forstöðukona Visku, segir að mikil eftirvænting ríki fyrir nýju námi – Skrifstofuskólanum – sem hefjist um leið og næg þátttaka næst. Eyjafréttir ræddu við Minnu um það helsta sem fram undan er.
Vorönn Visku 2026 er nú að taka á sig mynd og samkvæmt Minnu Björk Ágústsdóttur, forstöðukonu Visku, bíður næsta tímabil upp á fjölbreytt úrval náms og námskeiða. Skráningar eru þegar hafnar og margt spennandi í undirbúningi.
Ný námsleið og fjölbreytt námsframboð
„Það væri einstaklega gaman að koma nýja náminu okkar, Skrifstofuskólanum, á koppinn í vetur,“ segir Minna. „Við þurfum tíu nemendur til að hefja námið og vonumst til að íbúar sjái tækifæri í þessu – bæði til að efla færni sína og opna á frekara nám.“
Skrifstofuskólinn er 160 klukkustunda nám sem veitir þeim sem hyggjast starfa á skrifstofu góða undirstöðu og getur verið metið sem allt að átta framhaldsskólaeiningar. „Markmiðið er að efla sjálfstraust og starfsfærni, kenna verkfæri og verkferla sem nýtast í störfum á hinum ýmsu vinnustöðum,“ bætir hún við.
Einnig heldur áfram vinsælt nám í íslensku fyrir útlendinga sem hefst í febrúar. „Skráning fer fram hjá Jóhönnu Lilju á netfangið jle@viskave.is,“ segir Minna. Þá bendir hún á að námið Færni á vinnumarkaði fyrir fatlað fólk hafi sannað sig í tveimur fyrri lotum. „Það hefur gefið ótrúlega góða raun og við erum gríðarlega stolt af þeim árangri.“
Tómstundir, námskeið og samstarfsverkefni
Auk formlegs náms verður boðið upp á fjölbreytt tómstundanámskeið á vorönn. „Við erum þegar með nokkur námskeið opin fyrir skráningu og fleiri bætast við fljótlega. Það er alltaf líf og fjör í þessari dagskrá,“ segir Minna. Þá nefnir hún að kvennaráðstefnan MEY verði nú haldin í fjórða sinn þann 18.apríl.
Tvö námskeið fyrir eldri borgara eru einnig á dagskrá: gervigreindarnámskeið og námskeiðið Listin að eldast vel. „Þau verða auglýst nánar á næstu dögum, en við vitum að þessi námskeið hitta vel í mark.“
Á vordögum verður frumsýnd ný leiksýning í samstarfi við Heimaey hæfingarmiðstöð. „Samstarfið hefur verið einstaklega gefandi og við hlökkum til að kynna afraksturinn fyrir samfélaginu.“
Í lokin hvetur Minna fólk til að fylgjast með heimasíðunni viskave.is eða senda fyrirspurn á viska@viskave.is. „Við tökum fagnandi á móti öllum sem vilja efla færni sína – og vonumst að sjálfsögðu til að sjá sem flesta í Skrifstofuskólanum.“




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst