„Héraðsmiðlar á Íslandi hafa miklar áhyggjur af rekstrinum og skora nú á stjórnvöld að skipa starfshóp til að fara yfir stöðu miðlanna. Eyjafréttir, fjölmiðill frá Vestmanneyjum, héldu á sunnudaginn ráðstefnu til að vekja athygli á veikri stöðu landsbyggðarblaða. Fjölmiðlarnir eru nú sumir í samstarfsumræðum, að sögn Ómars Garðarssonar og Gunnars Gunnarssonar, en á sunnudaginn var sameining fjölmiðlanna Eyjafrétta og Eyjar.net einnig fagnað. Sami vítahringur virðist vera algengur meðal héraðsfjölmiðla miðað við frásagnir nokkurra ritstjóra. Fjölmiðlamennirnir segja miðla sína fá lítið fjármagn og litlar tekjur, sem veiki stöðu þeirra og geri þeim erfiðara fyrir að ráða og halda góðu starfsfólki,“ segir í umfjöllun mbl.is um ráðstefnu sem Eyjafréttir stóð fyrir um stöðu fjölmiðla á landsbyggðinni 7. júlí sl. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra var meðal fyrirlesara·
Umfjöllunin í heild:
„Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar, segir rekstur héraðsfréttamiðla vera á þolmörkum. Ritstjórinn segir ástandið gera það að verkum að fámennu og undirfjármögnuðu fjölmiðlarnir kjósi frekar að skrifa auðveldari fréttir til þess að spara tíma. Skapti Hallgrímsson, ritstjóri Akureyri.net, segir aftur á móti að fjölmiðlareksturinn gangi vel en lítil fjármögnunin og fámennur mannskapurinn geri það að verkum að einhverjar fréttir séu ekki teknar fyrir. „Við erum að skoða okkar samvinnu og við erum að biðja um hjálp eða hvatningu við hana með áskorun til ráðherra að skipa starfshóp,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is en forsvarsfólk héraðsfréttamiðla, þar á meðal Gunnar og Ómar, sendu Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, viljayfirlýsingu til samstarfs og áskorun til ráðherrans um daginn.
Ráðherrann mætti á ráðstefnuna og var einn fyrirlesaranna en Gunnar segir samtalið við hana hafa verið gott. Gunnar segir ráðstefnuna hafa verið góða en að það sem skiptir í raun mestu máli séu aðgerðir. Þá nefnir hann samstarf héraðsfjölmiðla, ásamt stuðningi frá sveitarfélögum og ríkinu sem mikilvæga þætti. Hann segir þau hafi sloppið við að fækka starfsfólki en þau hafi alltaf haft tvo blaðamenn sem skrifa 12 blaðsíðna blað á viku, en Gunnar bætir við að það sé mjög mikilvægt að halda í starfsfólk þar sem langtíma þekking í þessari stétt sé mjög mikilvæg.
Að hans sögn hafa héraðsfjölmiðlarnir verið reknir á næstum því engum pening síðustu ár og nefnir að fjölmiðillinn Eystrahorn frá Höfn í Hornafirði hvarf síðustu áramót vegna þess. „Ég þakka það sem vel er gert,“ segir Gunnar um fjölmiðlastyrki en hann segir þá hafa skipt þau máli og hafa haldið miðli sínum á floti. Þó þurfi betri fyrirsjánaleika. Hann segir þau þurfa að vita framhaldið en að ef styrkurinn sem þau fá núna hverfur um áramótin þá muni vera hrun í héraðsfjölmiðlum á Íslandi. „Þá gefast menn upp og hætta þessu á meðan þeir geta labbað út sæmilega beinir.“
Ómar Garðarsson, ritstjóri Eyjafrétta, segir einnig ríkisstyrki þurfa að vera fyrirsjáanlegri, í fastari skorðum og opnari. Hann segir auglýsingatekjur héraðsfjölmiðla hafa minnkað undanfarið en áskrifendum ekki fjölgað.
Gunnar segir héraðsmiðla vera ómetanlega, þar sem þeir fjalla um það sem landsfjölmiðlar ná ekki að fjalla um. Einnig segir hann fjölmiðla almennt mjög mikilvæga, því í löndum þar sem fjölmiðlar eru virkir sé meiri lýðræðisþátttaka og minni spilling. Langflestar fréttir Eyjafrétta tengjast Vestmannaeyjum á einhvern hátt en Ómar segir það mikilvægt að hafa héraðsfjölmiðla til þess að hægt sé að miðla upplýsingum um það sem sé að gerast á landinu öllu.
Hann bætir við að styrkir þurfi ekki bara að vera í peningum, eins og Lilja Dögg nefndi í erindi sínu á ráðstefnunni, heldur gætu þeir falist í tækninýjungum. Ómar segir Lilju hafa þekkt málið og sýnt því áhuga en að ráðstefnuna hafa gengið ótrúlega vel. „[Það var] góð mæting á ráðstefnuna og að fá þetta öfluga fólk finnst mér vera góð viðurkenning fyrir þau störf sem eru unnin á héraðsfréttamiðlum,“ segir Ómar í við mbl.is. „Það kemur frá fólki að það telur þá ekki bara eiga rétt á sér, heldur vera nauðsynlega í fjölmiðlaflóru landsins,“ bætir hann við.
Skapti hjá Akureyri.net segir allt ganga fremur vel hjá þeim en er þó sammála öðrum ritstjórum um að vanti fjármagn. Hann minnist á að ótrúlegt sé að vefur hans var til dæmis heimsóttur rúmlega 17.000 sinnum í gær þar sem hann birtir aðeins fréttir fyrir 20.000 manna bæjarfélag en hann segir marga hafa áhuga á Akureyri.
Miðillinn skrifi níu eða tíu fréttir á dag en Skapti segist þó vilja skrifa enn fleiri. En til þess vantar mannskap. Og til þess að fá mannskap þarf fjármagn, segir hann. „Það skortir ekki efni, þrátt fyrir allt, þá er það sem mig vantar bara enn þá meiri hendur því metnaðurinn er svo mikill,“ segir Skapti í og bætir við að samhliða því myndi hann vanta aukið fjármagn. Aðspurður segir hann héraðsfjölmiðla skipta gríðarlegu máli. „Mér finnst samfélagið eiga skilið svona miðil.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst