„Það ber margt að sama brunni í þessu máli. Hæstvirt ríkisstjórn og hæstvirtur utanríkisráðherra gera samning án þess að ráðfæra sig að neinu marki við utanríkismálanefnd milli fjögurra ríkja, auk Íslands, Bretlands, Færeyja og Noregs, um skiptingu hlutdeildar í makríl,“ sagði Karl Gauti Hjaltason þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi í ræðu á Alþingi um nýgerðan samning utanríkisráðherra um makrílveiðar. Var hann fyrstur þingmanna til að hefja máls á samningnum.
Hann minnti á að ráðherrann hefði daginn áður sagt að hún stæði vörð um hagsmuni Íslands. „En hlutdeild Íslands í makríl fer úr 16,5% niður í 10,5%. Þetta er lækkun um sex prósentustig. Er þetta hagsmunagæsla fyrir Ísland? Við höfum veitt makríl í yfir tvo áratugi og þetta er árangurinn sem við fáum í hendur. Það hlýtur að vekja alvarlegar spurningar um vinnubrögð og forgangsröðun í utanríkismálum,“ sagði Karl Gauti og uppskar framíköll frá utanríkisráðherra sem sakaði hann um að fara rangt með.
Karl Gauti tók aftur til máls og lýsti verulegum áhyggjum af hagsmunagæslu Íslands í þessu máli. „Ekki síst vegna þess að Evrópusambandið og Grænland eru ekki aðilar að samningnum. Það getur þýtt allt að 100 þúsund tonna veiði umfram þá ráðgjöf sem miðað er við. Þá verður ráðgjöfin einfaldlega í lausu lofti.
Ég hef einnig áhyggjur, ekki aðeins af minnkandi heildarafla okkar og minnkandi hlutdeild, heldur líka vegna ákvæðis í samningnum um að tveir þriðju hlutar af afla Íslands innan norskrar lögsögu skuli landað í Noregi og seldir til Norska síldarsamlagins sem er einokunarsamlag og þessi fiskur kemur ekki til vinnslu á Íslandi. Þetta hefur augljósar og alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska sjávarútveginn og vinnsluna hér heima.“
Í sinni þriðju ræðu daginn eftir var Karl Gauti enn á sömu nótum og velti upp á hvaða vegferð hagsmunagæsla Íslands í utanríkismálum sé? „Hæstvirtur utanríkisráðherra fer erlendis og skrifar undir samning án þess að tala við kóng eða prest. Í mörg ár hefur verið reynt að ná samningum um makrílinn og allt í einu er bara skrifað undir. Og hvernig er samningurinn? Hann nær ekki einu sinni til allra hlutaðeigandi aðila,“ sagði Karl Gauti og lýsti enn og aftur yfir áhyggjum af norska ákvæðinu.
„Hvar er hagsmunagæslan?“ spurði Karl Gauti og beindi orðum sínum til utanríksiráðherra sem hafði daginn áður sakað hann um að fara rangt með. Tveir þriðju hlutar afla Íslendinga í norskri lögsögu á að fara á uppboð samkvæmt samningnum. Verður makríllinn þar af leiðandi unnin þar. Því hefur utanríkisráðherra ekki mótmælt eftir því sem næst verður komist. „Ef þetta er rétt, þá er þetta grafalvarlegt mál fyrir íslenska vinnslu. Þessi fiskur verður þá ekki unninn á Íslandi, heldur seldur og unninn í Noregi,“ sagði Karl Gauti að lokum.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst