Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga 2025–2026 fór fram í Rimaskóla í Reykjavík dagana 13.–16. nóvember sl.. Seinni hlutinn verður haldinn 5.–8. mars 2026. Teflt er í fimm flokkum: Úrvalsdeild með sex átta manna sveitum og síðan í 1., 2., 3. og 4. deild, þar sem samtals 48 sex manna sveitir keppa, þar af 24 í fjórðu deild. Heildarfjöldi keppenda, með varamönnum, er um 450 talsins.
Taflfélag Vestmannaeyja sendi þrjár sveitir til keppni. Ein þeirra var í úrvalsdeild og skipuð bæði innlendum og erlendum skákmeisturum, líkt og hjá öðrum liðum í úrvalsdeild. Meðal þekktra skákmeistara sem tefldu fyrir TV eru stórmeistararnir Helgi Ólafsson og Jóhann Hjartarson, og er þetta í fyrsta sinn sem Jóhann teflir fyrir TV. Auk þess voru þrír erlendir skákmeistarar í sveit TV og komu fimm innlendir skákmeistarar einnig mikið við sögu.
Að loknum fimm umferðum er sveit TV í þriðja sæti af sex með þrjá sigra af fimm og 24,5 vinninga af 32 mögulegum. Skáksveit KR er í efsta sæti, Fjölnir í 2. sæti, TV í 3. sæti, Breiðablik í 4. sæti, Víkingaklúbburinn í 5. sæti og að lokum Taflfélag Reykjavíkur í því sjötta. Athygli vekur að fjórar af sex sveitum í úrvalsdeild eru hluti af öflugum íþróttafélögum sem þær eru kenndar við. TV er eina liðið í úrvalsdeild utan höfuðborgarsvæðis. Umtalsverð útgjöld fylgja veru í úrvalsdeild og hefur sérstök fjáröflunarnefnd undir forystu Ægis Páls Friðbertssonar unnið afar gott verk. Liðstjóri úrvalsdeildar TV er Þorsteinn Þorsteinsson, margreyndur skákmeistari.
Í 4. deild keppa 24 skáksveitir, þar á meðal b)- og c)-lið TV, með sex keppendur í hvorri sveit auk varamanna. Eftir fjórar umferðir og lok fyrri hluta mótsins er c)-sveit TV með þrjá sigra og eitt tap og 15 vinninga af 24 mögulegum. B)-sveit TV er með tvo sigra og tvö töp og einnig með 15 vinninga. Árangur c)-sveitar er mjög góður og er hún í 3.–5. sæti. Meðal keppenda þar er Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar. Liðsstjóri c)-sveitar er Ólafur Hermannsson.
Árangur b)-sveitar eftir fyrri hlutann er undir væntingum og er liðið nú í 9.–15. sæti, en hefur þó flesta vinninga þeirra sveita sem þar eru jöfn. Úrslit ráðast í mars nk., en tvær efstu sveitir fara upp í 3. deild. Meðal keppenda í b)-sveit má nefna Sigurjón Þorkelsson, Lúðvík Bergvinsson og Hallgrím Steinsson. Liðsstjóri b)-sveitar er Arnar Sigurmundsson.
Alls tóku 18 félagar TV þátt í taflmennsku í b)- og c)-sveit og tefldu allt frá einni skák og upp í fjórar, segir í tilkynningu frá Taflfélagi Vestmannaeyja. Fleiri myndir frá mótinu má sjá hér að neðan.























Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst