Sögusetrið 1627 í Vestmannaeyjum mun að venju í júlímánuði bjóða upp á dagskrá sem tengist Tyrkjaráninu 1627. Á þessu ári eru liðin 398 ár frá því að ræningjar frá Alsír komu hingað til Vestmannaeyja þar sem þeir rændu, rupluðu, drápu 36 íbúa og tóku 242 manneskjur með sér á þrælamarkaði í Alsír. Þessir atburðir mörkuðu djúp spor í sögu Vestmannaeyja og því er full ástæða til að minnast þeirra og miðla milli kynslóða Eyjamanna.
Nú í ár minnist Sögusetrið atburðanna með dagskrá laugardaginn 12. júlí kl. 14 í Safnahúsinu.
Dagskráin í Safnahúsinu verður þannig:
- Óskar Kristinn Vignisson, kvikmyndagerðarmaður sýnir nýja 25 mínútna langa heimildamynd um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum 1627 sem hann er að leggja lokahönd á. Sögumaður og höfundur handrits er Adam Nichols. Myndin er textuð á íslensku. Myndin var tekin í Eyjum sumarið 2024. Tökumaður var Halldór B. Halldórsson.
- Karl Smári Hreinsson, mun fjalla um þýðingar og útgáfur á Reisubók séra Ólafs Egilssonar og einnig um aðrar bækur um Tyrkjaránið sem hann hefur unnið að ásamt Adam Nicholsen alls hafa á síðustu árum 16 útgáfur af bókum þeirra komið út á alls fimm tungumálum eða eru að koma út á næstunni.
- Upptaka Halldórs B. Halldórssonar af dagskrá Sögusetursins í Krosskirkju í Austur- Landeyjum 8. júní 2024 verður opnuð á vefnum sagnheimar.is. Í Krosskirkju var meðal annars fjallað um bein og óbein tengsl kirkjunnar við Tyrkjaránið.
Sögusetrið hvetur Vestmannaeyinga og gesti og taka þannig þátt í að minnast þeirra atburða sem gerðust sumarið 1627. Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis.
Ragnar Óskarsson formaður Sögusetursins 1627