Af gefnu tilefni vil ég að leiðrétta rangfærslur eða misskilning um að ekki fáist upplýsingar um Surtsey nema leitað sé til Reykjavíkur.
Umhverfisstofnun hefur kostað gæsilegar sýningar í Vestmannaeyjum með myndum og upplýsingum um eyjuna allt frá árinu 2010 fyrst með Surtseyjarstofu við Heiðarveg og svo frá 2014 í Eldheimum.
Í Eldheima koma árlega tugþúsundir ferðamanna, námsmanna og fræðimanna til þess að kynna sér þróun Surtseyjar. Sýningin og hljóðleiðsögnin er vönduð og upplýsandi auk þess sem metnaður er lagður í að hafa alltaf til staðar starfsfólk sem getur svarað einstökum spurningum sem upp koma varðandi eynna.
Ég lit á það sem ábyrga og eðlilega ákvörðun Umhverfisstofnunar að vera ekki að greiða að óþörfu fyrir skrifstofuhúsnæði utan Eldheima. Það er eðlilegt og sjálfsagt að hún nýti sér húsakynni Eldheima sem hún leigir af Vestmannaeyjabæ þegar starfsmenn hennar eru í Eyjum og vantar vinnu- eða fundaraðstöðu.
Starfsfólk Umhverfistofnunar og Eldheima/Vestmannaeyjabæjar eiga í mjög góðri samvinnu. Nú síðast á 60 ára afmæli Surtseyjar var sett upp glæsileg sýning með nýjustu myndum af lífi og þróun í eynni og ýmislegt áhugavert er í bígerð á næstunni.
Ég vísa fullyrðingum um að það þurfi að sækja upplýsingum um Surtsey til Reykjavíkur á bug.
Kristín Jóhannsdóttir safnstjóri Eldheima
Myndin er tekin á ljósmyndasýningunni, sem sett var upp í á 60 ára afmæli Surtseyjar 14. nóv. sl.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst