Það þykir óvenjulegt að íþróttafélag sé einnig með kór á sínum snærum og lengi vel ekki vitað um aðra slíka kóra. Þó hefur komið í ljós að Hestamannafélagið Sprettur haldi úti kórstarfi og nýlega fannst slíkur kór í Portúgal.
Valskórinn er ein arfleið Friðriks Friðrikssonar sem stofnaði KFUM & K og fagnar um þessar mundir 30 ára starfsafmæli. Kórinn heldur árlega jóla- og vortónleika auk þess að koma fram á viðburðum íþróttafélagsins.
Vortónleikar Valskórsins eru tileinkaðir því að 50 ár eru liðin frá eldgosinu á Heimaey.
Kórinn mun vísitera Eyjar um helgina og ætlar að taka lagið fyrir gesti og gangandi í Eldheimum laugardaginn 29. apríl kl. 16:00 á efri hæðinni.
Vortónleikar kórsins verða síðan í Háteigskirkju fimmtudaginn 4. maí kl. 20.00 og eins og áður segir munu Eyjalög vera hluti af dagskránni.Gestasöngvarar á vortónleikunum verða Kristjana Stefánsdóttir og við píanóið verður Jónas Þórir. Miðaverð á vortónleikana er 3000 kr. og frítt fyrir yngri en 12 ára tónleikagesti.
Stjórnandi kórsins er Bára Grímsdóttir tónskáld, sem um tíma stjórnaði Samkór Vestmannaeyja og kenndi tónmennt í Hamarsskóla.
Fréttatilkynning.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst