„Það eru verulega slæmar fréttir að loka eigi vinnslu Leo Seafood. Það eitt ætti kannski ekki að koma á óvart eftir erfiðan rekstur síðustu ár og mikið tap sérstaklega síðustu tvö ár. Þetta verður mikið högg fyrir samfélagið ef allir þeir sem fengu uppsögn núna um mánaðamótin munu missa vinnuna þegar upp verður staðið.“ Þetta segir Víðir Reynisson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í samtali við Eyjafréttir.
Hann bendir á að lögin um breytingu á veiðigjöldum taki ekki gildi fyrr en 1. nóvember og koma ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári og þá ekki að fullu því tekið var tillit til ábendinga um að þetta væri of hratt gert og því mun þetta taka gildi í þrepum.
„Uppsagnir hjá Leo Seafood eru því tæplega tengdar þessum breytingum beint. Eins og fram kom í tilkynningu Vinnslustöðvarinnar hefur verið unnið að hagræðingu hjá fyrirtækinu um talsverðan tíma og sú vinna hófst áður en núverandi ríkisstjórn komst til valda og kynnti frumvarpið um breytingar.“
„Ekki er hægt að horfa framhjá því að loðnubrestur varð á síðustu vertíð og að ekki tókst að veiða allan makrílkvótann. Þetta var raunverulegt högg fyrir rekstur fyrirtækja sem stunda umfangsmiklar uppsjávarveiðar og vinnslu.“
Víðir segir að mikil greiningarvinna hafi farið fram við gerð frumvarpsins um veiðigjöld og að fyrirtækin hafi svigrúm til að mæta breytingunum. „Ef fólk skoðar hagnað sjávarútvegsfyrirtækja eftir að öll gjöld hafa verið greidd, er ljóst að rými var fyrir breytingar og geta fyrirtækjanna því til staðar.“
Víðir segir að framundan sé hagræðing í ríkisrekstri og hyggst hann beita sér fyrir því að verkefni sem tengjast sameiningu stofnana verði flutt út á land.
„Við þurfum sérstaklega að horfa til svæða þar sem atvinnuleysi er og þar sem vinnumarkaðurinn er einsleitur og skortir fjölbreytni,“ segir hann og bætir við: „Það er ekki góð þróun að fiskur sé fluttur óunninn úr landi. Fiskvinnslufólk á Íslandi telst seint til hálaunafólks, en sjávarútvegsfyrirtækin fullyrða samt að vinnslan hér sé of dýr og hagkvæmara sé að vinna fiskinn erlendis.“ Að sögn Víðis þarf að skoða þessa þróun og hvort rétt sé að grípa til aðgerða til að vernda störf í fiskvinnslu innanlands.
„Ég hef verið erlendis frá því að þessar fréttir bárust, en mun funda með bæjarstjóra fljótlega og stefni einnig á fund með fulltrúum starfsmanna. Gott væri að hitta forsvarsfólk Vinnslustöðvarinnar líka.“
Hann bætir við að hann hafi áður fundað með fulltrúum Útvegsbændafélags Vestmannaeyja meðan frumvarpið var í vinnslu og einnig mætt á opinn fund um málið í Eyjum.
„Vinnsla sjávarafurða hefur þróast mikið með aukinni tækni og þeim sem starfa við vinnslu hefur fækkað verulega. Það væri mjög slæm þróun ef meira af fisk væri flutt út óunninn.“ Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að þróa áfram íslenskar sjávarafurðir sem hágæðavöru fremur en hráefni fyrir önnur lönd.
Víðir segir að hann vinni nú að því að tryggja frekara fjármagn frá ríkinu til lagningar nýrrar vatnsleiðslu. „Ég kem töluvert að því að tryggja það fjármagn sem þegar hefur verið veitt, en við viljum frekari aðkomu ríkisins þar sem ljóst er að verkið verður dýrara en upphaflega var talið.“
Auk þess vinnur hann að því að tryggja fjármagn til að bora fyrstu rannsóknarholu vegna fyrirhugaðra jarðganga og telur nauðsynlegt að fara yfir öll gögn sem snúa að úrbótum á Landeyjahöfn.
Þá nefnir Víðir önnur samgönguverkefni í kjördæminu sem brýnt sé að sinna, m.a. ferðamannavegi í uppsveitum, tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum, veginn um Reynisfjall og einbreiðar brýr á þjóðvegi 1.
„Ég myndi vilja að á þessu kjörtímabili hæfist skoðun á smíði nýs Herjólfs, ef niðurstöður tilraunaborana verða ekki jákvæðar.” Þó núverandi Herjólfur sé ekki gamall, bendir Víðir á að ferlið við nýsmíði skips sé langt, og því skynsamlegt að hefja undirbúning með góðum fyrirvara.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst