Í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ kemur fram að bæjaryfirvöld og Sextíu plús ehf. hafi komist að samkomulagi um að stefnt verði að byggingu allt að 140 herbergja hótels í svonefndri Hásteinsgryfju. „Þetta er sannarlega ánægjulegt fyrir okkur Eyjamenn enda hér um eina stórtækustu uppbyggingu í ferðaþjónustu á landinu öllu og sennilega eina af stærstu byggingaframkvæmdum í landinu í dag. Störfin sem skapast á byggingatíma telja sennilega í hundruðum og síðan í tugum eftir að starfsemi hefst,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri.