Vestmannaeyingar nútímans eiga sérstakar þakkir skilið fyrir þá miklu rækt sem þeir hafa lagt við minningu sveitunga sinna, sem á sínum tíma fluttust vestur um haf. Flestir þeirra festu rætur í Spanish Fork, í fylkinu Utah í Banda­ríkjunum. Kári Bjarnason, for­stöðumaður bæjarbókasafnsins í Eyjum, hefur unnið þrekvirki við að safna stórmerkum heimildum úr fórum afkomenda þeirra, bæði gömlum bréfum en ekki síður frásögnum sem enn lifa meðal háaldraðra ­Vestur-Íslendinga, sem líta á Vestmannaeyjar sem upphaf sitt í tilverunni. Bæjarstjórnin öll á þakkir skilið fyrir að hafa stutt við þetta verkefni bókasafnsins af alúð.