Ég ferðaðist mikið um landið síðast liðið sumar, þ.m.t. Vestfirðina. Flestir vita að samgöngur þar eru allt annað en góðar. En þar eru t.d. göng milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Þegar ég spurðist útí forsögu þeirra fékk ég að heyra einfalda en góða skýringu; þessi göng voru jú dýr, en þau voru öryggisatriði.
Fólk hafði látið lífið vegna fyrri vegar og því voru þessi myndarlegu göng gerð, fyrir þó ekki fleiri íbúa og ekki vegna þess að einhver mokgræddi á því. Ég samgladdist íbúum þar innilega að hafa fengið þessa frábæru bót á sínum samgöngum. Mannslífið er auðvitað það sem mestu máli skiptir.
Ég sat fund nýlega með bæjarstjórn og fulltrúum Vegagerðarinnar um stöðuna í Landeyjahöfn. Fundurinn byrjaði á því að sýnt var myndband sem sýndi glögglega hve illa núverandi skip hentar í siglingar í Landeyjahöfn. Það var ekkert að veðri þennan dag en afturendi skipsins dansaði þannig að Zúmba-dansari væri stoltur af. Þetta myndband var reyndar tekið áður en radar var settur í Landeyjahöfn, sem er mikið öryggistæki, en það breytir því ekki að það þarf lítið til að skipið taki svona dansspor. Niðurstaða fundarins var sú að sérfræðingar sem þarna sátu, orðvarir menn, viðurkenndu aðspurðir að þrátt fyrir ótvíræða færni skipstjóra á Herjólfi, þá hafi Herjólfur ítrekað lent í vanda þrátt fyrir að ekkert í aðstæðum hafi fyrirfram gefið til kynna að sigling gæti verið varasöm. Að skipið hafi skrensað eins og bíll í hálku í nánast sléttum sjó. Að farþegum og áhöfn hafi verið hætta búin vegna þess hversu óheppilegt skipið sé við þær aðstæður sem eru fyrir framan Landeyjahöfn. En það hefur líka alltaf verið vitað að gamla skipið henti ekki í siglingar í Landeyjahöfn. Þessi samgöngubót átti aldrei einungis að vera bygging hafnar, það átti alltaf að fylgja með nýtt skip. Og hvar er nýja skipið?
Vitiði… það er rosalega erfitt að halda áfram að vera kurteis um þetta mál.
Staðan í dag er sú að við sitjum uppi með þetta gamla skip og sanddælingu sem ekki er að virka. Það er nákvæmlega ekkert að frétta! Eða jú, staðan hefur í raun versnað, hvernig svo sem hægt var að fara að því. Stóran hluta úr árinu þurfum við að sigla í Þorlákshöfn og hinn hlutann við vafasamar aðstæður í Landeyjahöfn. Við fáum svör á borð við að við séum bara 1.2% þjóðarinnar og séum að „heimta” stórar fjárhæðir. Það er ekki verið að heimta eitt eða neitt, það er verið að minna á að loforð um bættar samgöngur hér eru enn bara hálfklárað mál.
Það var líka alltaf vitað að það þyrfti að dæla úr höfninni en svo virðist sem þau dæluskip sem þar eru henti engan veginn heldur. Eins og einn gárunginn benti á: „Það er að verða komin hálf öld síðan við komum manni á tunglið, það er víst róbot að keyra um á Mars, en við virðumst ekki geta dælt sandi?” Og nýjasta nýtt er fullyrðing um að engin dæluskip ráði í raun við höfnina og íslenska veðráttu og fastur dælubúnaður sé það eina sem komi til greina.
Hérna, er ég ein um að finnast þetta gjörsamlega út úr kú? Úreld skip hægri/vinstri og það á 21. öldinni? Tók fimm ár að átta sig á þessu?
Í mínum huga er þetta líka spurning um öryggi. Tilhugsunin um að nokkrar helgar á ári gjörsamlega fyllist þetta skip af börnum er heldur ekki kræsileg. Hvað koma mörg börn hvaðanæva að af landinu t.d. á fótboltamótin? Við hvaða öryggi er siglt þegar vitað er að skipið hefur lent í hættu fyrir utan
Landeyjahöfn þegar ölduhæð hefur verið langt innan þeirra marka sem að öllu jöfnu er miðað við? Þegar skipið er smekkfullt t.d. fyrir Þjóðhátíð er ekkert gefið að skipið muni ekki lenda í kröggum, bara af því það er sumar. Vita landsmenn, foreldrar, tíðir gestir Eyjanna, af þessari staðreynd?
Málið er ekkert flókið. Það þarf að spýta í lófana, klára að fullkomna loforðið. Hér eru fyrirtæki sem eiga mikið undir að samgöngur séu góðar. Á hverjum degi blæðir þessum fyrirtækjum. En hér eru líka manneskjur sem þurfa að vita að ráðamenn hafi hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Það eru nefnilega langtumfleiri en „bara” Vestmannaeyingar sem notast við þessa ferju.
Og á meðan við bíðum á auðvitað að fá lánað skip sem hentar, einnig til að gera prófanir á aðstæðum. Hvernig væri að stóla ekki bara á einhvern hermi í fjarskanistan og hans niðurstöður, heldur fullprófa allt konkret svo að tölurnar verði kannski áreiðanlegri en þær sem fengust t.d. fyrir byggingu Landeyjahafnar? (Afsakið, en þeir útreikningar halda ekki vatni… bara sandi.) Hvernig væri að gera ekki sömu mistökin tvisvar? Þetta er jú spurning um stórar fjárhæðir… en líka öryggi mannslífa. Herjólfur er bara hreinlega ekki málið og Landeyjahöfn ekki eins auðveld viðureignar og spekingarnir fullyrtu.
(Ég veit að ég er samt ekki ein um að vera orðin svolítið ringluð á mismunandi fullyrðingum um hvað er hægt og hvað ekki, höfnin muni aldrei virka, höfnin geti alveg virkað, göng séu það eina sem virki, göng gætu aldrei orðið á þessu landsvæði, nýja ferjan sem er á teikniborðinu muni aldrei ganga o.s.frv. Bara svona til að ýta undir fáránleikann. Fyrst við fáum ekki göng verða yfirvöld þó að standa við þetta blessaða loforð.)
Ég biðla nú til þingmanna okkar að drífa þetta af. Ábyrgðin á samgöngum liggur hjá þeim. Því spyr ég þingmenn hvort þeir myndu sætta sig við að þurfa að fylla börnin sín af lyfjum eins og Phenergan eða Koffínátin til að koma þeim til íþróttakeppna eða hvert það annað erindi sem þau kunna að eiga að heiman eins og við þurfum oft að gera þegar siglt er til Þorlákshafnar? Myndu þeir sætta sig við það ófremdarástand sem skapast hérna því núverandi skip hentar ekki til siglinga í Landeyjahöfn og dæluskip ráða ekki neitt við neitt? Hafa þeir haft fyrir því að heyra hvað er að gerast hérna útaf þessu? Svona af alvöru? Ég spyr þá: eru þeir sáttir við að það sé á þeirra ábyrgð að Herjólfur sigli í Landeyjahöfn þrátt fyrir að vitað sé að hann sé ekki heppilegur til þeirra siglinga eins og reynslan hefur sýnt? Jafnvel ítrekað legið við slysum? Ólöfu Nordal innaríkisráðherra- ráðherra samgöngumála – vil ég minna á að hún ber sérstaklega ábyrgð í þessu máli rétt eins og Bjarni Benediktsson sem hefur valdið til að ákveða fjárframlög til verkefnisins. Nú veit ég að hæstvirtum ráðherra, Ragnheiði Elínu, finnst gaman og gott að koma í heimsókn til Vestmannaeyja. Síðast þegar þú heimsóttir eyjarnar, komstu með skipinu? Eða vissirðu það sem ég veit núna og komst með flugi?
Ég biðla til íslensku þjóðarinnar að setja þrýsting á þingmenn. Allir þeir sem nokkurn tímann hafa eða munu þurfa notast við skipið eiga hagsmuni að gæta. Skipið er varasamt og það eru mikið, mikið fleiri sem nota þetta skip en bara þeir sem hafa lögheimili í Vestmannaeyjum.
Að fresta úrbótum lengur er eins og að hafa sagt við Bolvíkinga á sínum tíma: „Við ætlum að grafa göngin en það er ekki til peningur til að breyta veginum frá þjóðvegi að fjalli. Sorrý. Tölum saman eftir fimm ár.”
Það sér hver maður að þetta þarf að klára. Það þarf nýtt (og almennilegt) skip. Og á meðan við bíðum; dælubúnað sem raunverulega dælir sandi og lánsskip sem hentar til siglinga milli sandlausrar Landeyjahafnar og eyja. Að staðan hafi hreinlega versnað síðustu ár er með öllu óskiljanlegt. Hefur ekkert verið hægt að læra af reynslunni síðan höfnin opnaði? Hefur ekkert verið hlustað á raddir þeirra sem hér búa? Hvað þarf að gerast svo úr þessu verði bætt? Ef Ártúnsbrekkan eða Reykjanesbrautin væru einungis saltaðar á dagvinnutíma í góðu veðri væru þingmenn búnir að láta í sér heyra? Þó það væri ekki nema vegna öryggisatriða? Veistu, ég held það bara.
Þolinmæðin er á þrotum. Við heimtum aðgerðir, NÚNA.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst