Keppti í amerískum fótbolta á Mallorca

Eyjamaðurinn Heiðar Smári Ingimarsson var í liði Einherja sem sigraði spænska liðið Mallorca Voltors í amerískum fótbolta á dögunum en leikurinn fór fram ytra. Einherjar voru stofnaðir í núverandi mynd árið 2015 en þangað til hafði stór hluti liðsins æft saman um árabil.
Hafa unnið þrjá af fimm leikjum sínum
Til að byrja með spiluðu leikmenn liðsins einungis innbyrðis en árið 2016 var ákveðið að taka næsta skref og spila leiki við erlend lið. „Við spiluðum á móti Asane Seahawks fyrst í mars 2016 og unnum þá 50:0 sigur. Síðan þá höfum við spilað í heildina fimm leiki og unnið þrjá af þeim,” sagði Heiðar þegar blaðamaður náði tali af honum um helgina en þá var Heiðar einmitt staðsettur uppi á hótelherbergi á Mallorca, allur lurkum laminn, blár og marinn og með brunasár í þokkabót eftir sigur á heimamönnum.
Aðspurður hvenær hann hafi fyrst farið að fylgjast með amerískum fótbolta segir Heiðar áhugann hafa sprottið upp fyrir um tíu árum síðan. „Fyrstu afskipti mín af alvöru amerískum fótbolta eru í Féló árið 2006 spilandi tölvuleikinn Madden með liðsfélaga mínum. Ég var fljótur að kaupa leikinn sjálfur og spilaði hann mikið heima. Hef verið mikill áhugamaður um NFL allar götur síðan.”
Nýtti hvert tækifæri til að mæta á æfingu í bænum
En hvenær byrjaðir þú að stunda íþróttina sjálfa? „Ég kem fyrst á æfingar árið 2011 og þá bara þegar ég átti erindi í bæinn t.d. þegar ég var að spila með körfuboltaliðinu. Svo fór ég að geta mætt oftar og tók ég margar ferðir með það eina markmið að kíkja á æfingar þangað til að ég flutti loksins í bæinn í byrjun árs,” segir Heiðar sem getur leyst fleiri en eina stöðu inni á vellinum. „Í gegnum allan þennan tíma hef ég spilað fullt af stöðum en þó aðallega í línu, bæði í vörn og sókn þó talsvert meira í vörninni.”
Hingað til hefur Einherji tekið á móti andstæðingum sínum á Íslandi en að þessu sinni fékk liðið boð um að fara út til að spila. „Venjulega höfum við þurft að leita uppi lið til að taka ferðina á klakann og spila við okkur en í þetta skipti höfðu Mallorca Voltors samband við okkur og vildu endilega fá okkur í heimsókn. Þeir munu leika í efstu deild á Spáni næsta tímabil og ákváðu því að setja af stað árlegt „pre-season” mót, Trofeo Ciudad de Palma, og vilja þeir sérstaklega reyna að fá nýja öfluga erlenda leikmenn til að spila við. Leikurinn var svo spilaður í frábæra veðrinu í Mallorca og unnum við 21-14,” segir Heiðar.
Hvetur áhugasama til að fylgjast með
Næst á dagskrá hjá Einherjum er líklegast leikur gegn sænska liðinu Stockholm Mean Machines og hvetur Heiðar áhugasama um að fylgjast með. „Þeir eru mjög öflugir vitum við og hefur einn af okkar leikmönnum spilað með þeim áður. Sá leikur verður væntanlega í Kórnum og hvet ég forvitna til þess að fylgjast með.”
Húsasmiðjan – almenn auglýsing

Mest lesið