Fimm þingmenn suðurkjördæmis lögðu í dag fram þingsályktunartillögu þess efnis að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verði falið að gera ráðstafnir til að Isavia geti hannað og staðsett þyrlupall í Vestmannaeyjum. Dæmi eru um að sjúkraflugvélar hafi ekki átt kost á að lenda í Eyjum vegna veðurs. Þyrlupallur sé nauðsynlegur til að auka öryggi sjúkra- og neyðarflugs til Vestmannaeyja, þessu greindi RÚV frá.

Í greinagerðinni kemur fram að í Vestmananeyjum búi fólk við áhættusækið atvinnulíf og skerta sjúkrahúsþjónustu. Sjúkraflug sé því mikilvægur örygisventill sem alls ekki megi bregðast þegar neyðarástand skapist í Eyjum. Fyrirséð sé að þyrla verði áfram mikilvægt öryggistæki fyrir sjúkraflug frá Eyjum þegar flugvöllurinn er lokaður, Herjólfur ekki í siglingu og Landeyjahöfn jafnvel lokuð.

„Þar getur verið mjög misvindasamt, skýjahæð undir 500 fetum og oft krefjandi aðstæður sem sjúkraflugvél ræður ekki við. Við þær aðstæður þarf að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja sjúka eða slasaða til Eyja. Þyrlur Gæslunnar hafa oft farið við afar erfiðar aðstæður til Eyja og oft er flugvöllurinn lokaður fyrir allri umferð og þarf þyrlan í slíkum neyðarflugum að notast við Hamarsveg, vestan Dverghamars, sem lendingarstað. Ekkert merkt svæði eða lendingarpallur er í Vestmannaeyjum í slíkum tilfellum og mikilvægt að auka öryggi íbúanna með byggingu þyrlupalls, “ segir í greinagerðinni.

Mikilvægt sé að búa þannig að þyrluflugi að besta mögulega aðstaða verði gerð sem fyrst og nýtist þegar flugvöllurinn í Eyjum lokast vegna veðurs.