Það er hálft ár þangað til tveir mjaldrarnir sem ætla setjast að í Vestmannaeyjum eru væntanlegir. Framkvæmdir eru í fullum gangi bæði við Ægisgötu þar safnið verður og einnig út í Klettsvík þar sem mjaldrarnir munu búa, en reiknað er með að kvíin verði tilbúin núna í október.

Bragi Magnússon er staðbundinn verkefnastjóri yfir framkvæmdum hvalasafnsins í Vestmannaeyjum, hann sagði að framkvæmdirnar séu búnar að ganga vel þrátt fyrir smá byrjunarörðuleika. „Upphaflega byrjaði þetta ekkert sérstaklega vel, við biðum alltof lengi eftir öllum tilsettum leyfum og svo þegar hafist var handa voru ýmsir hlutir sem komu uppá eins og sem dæmi miklu meiri jarðvinna heldur en menn bjuggust við. En núna gengur þetta allt saman mjög vel.“

Aldrei verið gert áður 
Laugin sem er verið að byggja, sem þeir kalla carepool eða umönnunarlaugin, er sú fyrsta sem er byggð í heiminum, „þetta hefur aldrei verið gert áður. Fyrsta hæðin á lauginni er staðsteypt, svo er hún forsteypt og stál ofan á það. Eins og fólk sér þetta núna þá virðist vera mjög mikið eftir en hlutirnir gerast hratt þegar fyrsta hæðin er komin.“ Fyrst eftir að mjaldrarnir koma verður laugin notuð sem einangrun, „alveg eins og þegar þú kemur með hundinn þinn til landsins, hann þarf að fara í einangrun. Síðan fara hvalirnir út í Klettsvík, en laugin verður svo til taks ef veðrið er brjálað eða hvalirnir veikjast.“
Núna er verkið komið á það stig að það verður engu breytt héðan í frá, „það verður engu breytt núna heldur bara framkvæmdirnar keyrðar áfram. Í janúar koma svo sérfræðingar frá Bretlandi sem verða vinna hérna með okkur þegar við förum að græja húsið að innan og þeir munu sjá um að setja upp sérhæfðan búnað eins og hreinsikerfi fyrir laugina og fyrir fiskasafnið,“ sagði Bragi

VEY- Starf sérkennsluráðgjafa leikskóla

Kvíin í Klettsvík á lokametrunum 
Síðustu vikur hafa einnig farið í mikla vinnu í Klettsvík og er áætlað að sú vinna klárist núna í október. „Þeir loka svæðinu sínu núna um mánaðarmótin október/nóvember, til að prófa einn vetur með öllum búnaðinum og athuga hvort eitthvað þurfi að fara betur,“

Hvalirnir leggja af stað 17. Mars og eru væntanlegir til Vestmannaeyja 19. Mars. „Þá er planið að opna safnið með pompi og prakt,“ sagði Bragi að endingu.