Fögnum framtíðinni

Félag kaupsýslumanna í Vestmannaeyjum tekur undir með Ferðamálasömtökunum í Vestmannaeyjum og fagnar því að Vestmannaeyjabær hafi tekið við rekstri Herjólfs og stuðlar þannig að fleiri ferðum og ódýrari fargjöldum. Félag kaupsýslumanna í Vestmannaeyjum ræddi á síðasta fundi mikilvægi greiðra samgangna fyrir verslun og þjónustu í Vestmannaeyjum. Eins og flestum er ljóst hafa verslanir í Vey. ekki farið varhluta af vexti ferðaþjónustunnar og má með sanni segja að margar verslanir séu í dag orðin ferðaþjónustufyrirtæki. Félagið horfir björtum augum á komu nýrrar ferju og skorar á bæjaryfirvöld að beita sér fast fyrir því að ferjan fari sem allra fyrst í almenna þjónustu en ekki verði dregið fram á vor að taka hana í notkun eins og vangaveltur hafa verið um. Hver mánuður skiptir fyrirtæki og íbúa máli. Að minnsta kosti á meðan skipstjórnendur venjast nýju skipi er eðlilegt að tryggt verði að gamli Herjólfur þjónusti samhliða í siglingum til Þorlákshafnar. Auk þess tekur félagið undir með vinum okkar úr ferðamálasamtökunum um að það séu bjartir tímar framundan og fjöldinn allur af tækifærum og ekki síst að okkur beri gæfa til að vinna saman með jákvæðni að þeirri uppbyggingu sem hafin er.

Félag kaupsýslumanna í Vestmannaeyjum