Tónlistarkonan og plötusnúðurinn Þura Stína Kristleifsdóttir eða SURA gaf út sína fyrstu sólóplötu í dag. Platan heitir Tíminn og er ellefu laga breiðskífa sem kemur út á Spotify og vínyl. Þura er með mörg járn í eldinum því samhliða sóló-verkefninu þá er hún einnig plötusnúður og hluti af Reykjarvíkurdætrum og hljómsveitinni CYBER.

Upphafið að plötunni fór almennilega af stað hjá Þuru Stínu í lok seinasta árs. „Ég gaf út breiðskífuna Horror með hljómsveitinni minni CYBER í október 2017 en Jóhanna Rakel og Salka sem eru með mér í bandinu ýttu algjörlega við mér og ég fann aftur mikla þörf fyrir tónlistarsköpun – sem er eitthvað sem ég hafði verið að loka á í alltof langan tíma. Eftir að hún kom út fann ég að mig langaði einnig að semja öðruvísi efni og var aftur farin að skrifa á fullu en pródúsentinn minn Björn Valur Pálsson kom mér svo almennilega af stað því um leið og hann var búin að segja já við því að vinna með mér að sólóefni þá fór ég kannski fyrst almennilega að trúa aftur á sjálfan mig. Þegar maður lokar á eitthvað svona ótrúlega lengi að þá er enn erfiðara að standa með sjálfum sér ætli maður aftur af stað. En ég fór heldur betur af stað og á líka Arnari kærastanum mínum mikið að þakka því hann stendur alltaf við bakið á mér eins og klettur í öllum klikkuðu hugmyndunum sem ég fæ og hvetur mig alltaf alla leið í að framkvæma þær. Ég hefði aldrei haldið áfram með plötuna nema fyrir allt þetta fólk sem ég nefni hér að ofan og þau voru í rauninni upphafið að plötunni.“

Eitthvað sem ég hélt að tíminn hefði læknað
Platan heitir Tíminn og fjallar mikið um aðstæður sem Þura Stína hefur lent í og upplifað sjálf. „Hún er mjög persónuleg og ég opnaði mig alla leið og skrifaði alltaf án þess að setja einhverjar hömlur á það sem ég var að semja um. Það var oft erfitt því ég fann að það var mikið sem ég var í rauninni að losa um eða hreyfa við, eitthvað sem ég hafði kannski ekki hugsað um lengi eða ýtt frá mér jafnvel. Ég fæ oftast spurningar eins og um hvern er þetta lag? en það eru ekki beint einhverjir ákveðnir aðilar sem lögin fjalla um heldur meira hlutir sem ég hélt að tíminn hefði læknað eða ég búin að jafna mig á. Ég vann hana að mestu leyti með Birni Val en hann var með yfirsýn með mér á verkefnið en ég vann einnig með beat frá pródúsentum eins og Ými Whyrun, Auði og Emil Andra sem á fyrsta lagið mitt Komast upp. Þetta eru 11 lög sem enduðu svo inn á plötunni sjálfri.“

Ég hef alltaf ætlað að verða tónlistarmaður
Aðspurð sagði Þura Stína að innst inni hafi alltaf planið verið að fara sjálf og gefa út sólóplötu. „Það var í rauninni kannski alltaf planið, ég hef alltaf ætlað að verða tónlistarmaður – alveg frá því ég man eftir mér. Það var alltaf það eina sem komst almennilega að þrátt fyrir að ég hafi átt mörg áhugamál. En ég fann núna að þetta var tímapunkturinn þar sem ég þurfti að taka af skarið og sé alls ekki eftir því að hafa tekið ákvörðunina, staðið með henni og klárað heila plötu.“

Lærdómsríkt og krefjandi ár að baki
Erfiðast í ferlinu fannst Þuru Stínu erfiðast að standa ein og óstudd á bakvið allt, „þegar maður er vanur að vinna í svona nánu samstarfi með öðrum aðilum í hljómsveitum en það var líka ástæðan fyrir því að ég fór af stað með sólóverkefnið. Þetta var samt aðallega út á við, þegar þú ert í hljómsveit tilheyriru hóp sem þú ert að vinna með en þegar þú ert bara að tala um 100% þitt project ertu mun berskjaldaðari einhvernveginn. En ég á alveg mjög lærdómsríkt og krefjandi ár að baki og mikið sem ég á þessari fyrstu plötu að þakka og get lært af fyrir komandi verkefni.“ 

Langir göngutúrar og gæðatími
Hvaðan færðu innblástur? „Vá ég tek innblástur úr svo mörgu en mér finnst fólk almennt mjög heillandi og ég sæki almennt mikið í annað fólk. Er svo heppin að vera umkringd duglegu og hæfileikaríku fólki alla daga sem ég fæ mikinn drifkraft úr og lít upp til. Annars er ég grafískur hönnuður og sæki mikið í hönnun og list en þegar ég er að semja fer ég mikið inn á við og get alveg velt mér upp úr hlutunum í lengri tíma. Ætli ég sæki ekki líka mikið í náttúruna, sko eins klisjulegt og það hljómar en ég fer í langar göngur nánast daglega með hundinn minn og þegar ég er ein með honum að labba þá fæ ég alveg ótrúlegustu hugmyndir að textum og verkefnum. Það er líka svo mikill gæðatími því það er eini tími dagsins þar sem er ekki utanaðkomandi áreiti.“

Tónleikar í Eyjum milli jóla og nýárs
Hvað er framundan hjá þér næstu mánuði? Það er útgáfupartý hjá mér í kvöld þar sem ég ætla að taka plötuna live í gegn í fyrsta skipti. Svo er risastór Iceland Airwaves vika framundan sem byrjar á miðvikudaginn þar sem ég kem fram með hljómsveitunum mínum Cyber og Reykajvíkurdætrum og auðvitað sólóprojectinu mínu SURA. Ég er á Hard Rock fimmtudaginn 9. nóvember kl. 21:10 ef einhverjir Eyjamenn eru að skella sér á Airwaves. Svo er alltaf mikið af bókunum í desember en ég ætla einnig að halda tónleika í Vestmannaeyjum á milli jóla og nýárs. Ég er sjálf mikið jólabarn og ætla að vera í Eyjum yfir jólin en ég hlakka rosalega til að halda tónleika heima en þar mun ég flytja plötuna sjálfa og líka lög sem hafa haft áhrif á mig.

Hægt er að hlusta á plötuna hennar Þuru Stínu hérna.