Hvar er Ríkið?

Berglind Sigmarsdóttir

Stígamót var í vikunni með söfnunarþátt í sjónvarpinu til þess að fá fjármagn í að fræða ungmenni okkar um kynlíf, heilbrigð samskipti í samböndum, kenna ungu fólki að finna sín mörk, fræðast um klámvæðingu sem mikil þörf er á inní skólana þar sem klámvæðingin virðist vera að hafa hræðileg áhrif er varðar kynferðisofbeldi. Hvar er menntakerfið? Ríkið?

Í þessari viku verða styrktartónleikarnir ÁKALL til varnar sjúkrahúsinu VOGI. SÁÁ er að berjast í bökkum við að taka á móti fíklum og biðlisti yfir 600 manns, framhaldsmeðferðir og úrræði fyrir fólk sem vill snúa við blaðinu í molum. Unga fólkið okkar er að deyja og við gerum ekki neitt. Hvar er heilbrigðiskerfið? Ríkið?

Fólk með geðraskanir, börn, unglingar eða fullorðnir koma allsstaðar að lokuðum dyrum. Sjálfsmorðstillraun er ekki nóg til að komast að. Hvar er heilbrigðiskerfið? Ríkið?

Heilbrigðisstofnunum lokað á landsbyggðinni eða svo lamaðar að fagfólk er skilið eftir með hálf tóma sjúkrakassa til að taka á móti slösuðu fólki. Öldruð frænka mín búin að liggja á spítala í Eyjum í marga daga brotin, sárþjáð en ekkert pláss að taka á móti henni á Landsspítalanum. Hvar er heilbrigðiskerfið? Hvar er Ríkið?

Rauði krossinn sér um að þjónusta fíklana á götunni og heimilislausa, rekur heimili fyrir geðraskaða, neyðarsíma ogsfrv. Hvar er heilbrigðiskerfið? Hvar er Ríkið?

Kiwanisklúbbar og aðrir góðgerðahópar sjá heilbirgðisstofnunum fyrir tækjum, tólum, rúmum ogsfrv. Hvar er Ríkið?

Eldri borgarar sem hafa borgað skatta og skyldur alla sína æfi búa margir við ömurlegar aðstæður og hvergi virðist vera pláss fyrir þetta blessaða fólk, hennt út af spítala hjálparlaust því það er ekki pláss, elsku gamla fólkið sem þarf að gefa allt frá sér áður en það deyr svo síðasta skatthöndin nái ekki yfir það sem það hefur unnið sér til eigna og marg borgað skatta fyrir. Skammarlegt og ljótt svo ekki sé meira sagt. Hvar er heilbrigðiskerfið? Hvar er Ríkið?

Það duga ekki mánaðarlaun þeirra lægst launuðu til þess að láta rótafylla tvær tennur. Hópaferðir til tannlækna í Póllandi eru orðin neyðarúrræði margra, sem sjá sér ekki fært að borga hundruði þúsunda fyrir viðgerðir á tönnum.

Hvar er heilbrigðiskerfið? Hvar er Ríkið?

Mikið væri gaman að fara að sjá eitthvað af viti gerast í einhverju af þessum málum. Nóg borgum við öll einstaklingar sem fyrirtæki. Til hvers erum við að borga í púkk sem bregst okkur á svo marga vegu. Hvert fer þetta? Og hvað er verið að gera?

Berglind Sigmarsdóttir