Höfum áhrif – Rafbílavæðum Vestmannaeyjar

Davíð Guðmundsson

Undirritaður hefur sent Vestmannaeyjabæ ábendingu undir verkefninu „Viltu hafa áhrif?“ Nú þegar hyllir undir að fyrsta rafdrifna ferjan á Íslandi hefji siglingar milli lands og Eyja, og fyrsta varmadæluverkefnið á Íslandi, sem nýtir sér varma sjávar til upphitunar á heilu bæjarfélagi hefjist, þá tel ég að Vestmannaeyjar geti orðið fyrirmynd annarra bæjarfélaga hvað varðar vistvæna orkunýtingu.

Ég tel að Vestmannaeyjabær og við íbúarnir getum og eigum að vera í fararbroddi þegar kemur að rafbílavæðingu landsins.

Hvar annarsstaðar en á Eyjunni grænu, ættu rafbílar að vera í forgangi?

Hér þarf ekki margar hraðhleðslustöðvar þar sem hægt er að hlaða bílinn/farartækið, heima. Einungis þyrfti að huga að hraðhleðslustöðvum fyrir rafbíla ferðamanna sem hingað koma á hringferð um landið. Nú þegar er búið að koma upp hleðslustöðvum allan hringinn. Helstu mótbárur við rafbíla hafa verið að langdrægni sé ekki næg fyrir okkur Eyjamenn sem þurfum að komast úr Landeyjahöfn til höfuðborgarinnar og til baka. Nú eru komnir fram fjöldaframleiddir rafbílar, t.d. Tesla Model 3 sem fara 350-500km á einni hleðslu! M.a.s. nýjustu Nissan Leaf bjóða upp á 250km drægni.

Hvernig væri að setja Vestmannaeyjabæ markmið um að þegar bifreiðar verði endurnýjaðar skuli rafbílar vera í forgangi, svipað og ríkið hefur gert varðandi ráðherrabílana?

Með ábendingunni setti ég fram 3 spurningar sem ég fékk svar við fljótt og vel:

Hversu margar bifreiðar eru í notkun hjá Vestmannaeyjabæ?
Yfir árið eru líklega 8-9 bílar í notkun af Vestmannaeyjabæ. Einn hjá Vestmannaeyjahöfn, einn hjá slökkviliði og restin í Áhaldahúsi.

Hvert er hlutfall rafbíla?
Það er enginn rafmagnsbíll enda langt síðan keyptur var „nýr“ bíll í áhaldahús. Nýjasti bíllinn er hjá slökkviliði og þar hentar rafbíll ekki þar sem útköll geta verið löng, koma óvænt og bíllinn þarf að vera til taks með stuttum fyrirvara hvenær sem er.

Hver er bensínkostnaður bæjarins á ári?
Eldsneytiskostnaður fyrir bíla og tæki árið 2017 var um það bil 4.593.252 kr. Eldsneytiskostnaður fyrir bíla og tæki það sem af er ársins 2018 er um það bil 4.219.152 kr.

Hér er því peninga að spara.

Eyjamenn hafa verið þekktir fyrir frumkvöðlakraftinn og hann er svo sannarlega til staðar. Virkjum hann og umfram allt verum jákvæð fyrir nýjungum og breytingum.

Undirritaður hefur mikinn áhuga á þessum málum og kom meðal annars að bréfaskriftum við stjórnvöld, til að knýja á um að hinn nýi Herjólfur yrði rafdrifinn frá upphafi í stað þess að fara í þá aðgerð síðar. Rafknúin ferja hefur marga kosti hvað siglingar varðar og er að sjálfsögðu vistvænni og hagkvæmari í rekstri.

Ég er félagi í Rafbílasambandi Íslands og meðlimur í áhugamannahópi Verkfræðingafélags Íslands um rafbílavæðingu.

Þá er ég á biðlista eftir TESLA Model 3 sem verður afhent á fyrri hluta ársins 2019 J

Davíð í Tölvun