Styttist í opnum á Landeyjahöfn

Eins og staðan er núna á eftir að fjarlægja samtals um 17 þús m3 af sandi á dýpkunarsvæðunum

Dýpkunarskip vann við dýpkun í Landeyjahöfn 12., 13., 16., 17. og 18. mars. Ágætlega gekk að dýpka í innsiglingu og á snúningssvæði innan hafnar, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Ekki tókst að flytja dýpkunarpramma til Landeyjahafnar um helgina eins og stefnt var að. Eins og staðan er núna á eftir að fjarlægja samtals um 17 þús m3 af sandi á dýpkunarsvæðunum. Þar af eru 3-4 þús milli garða í hafnarmynni og um 13-14 þús innan hafnar, að mestu leyti meðfram jöðrum dýpkunarsvæða.

Nýjustu veðurspár benda til mögulegs dýpkunarveðurs á föstudag. Við teljum að það þurfi um einn dag til þess að fjarlægja það sem eftir er í hafnarmynni. Annars staðar er dýpi að mestu leyti komið í viðunandi horf. Það tekur sennilega 2-3 daga að fjarlægja það sem eftir er innan hafnar, segir í tilkynningu.