Landeyjahöfn verður lokuð á þriðjudag enda spáin vond og gæti það orðið til þess að komu tveggja mjaldra til Vestmannaeyja verði því frestast. Forsvarsmenn Merlin Entertainment, sem sjá um mjaldraverkefnið, gerðu ráð fyrir siglingu um Landeyjahöfn þar til í morgun, segir í frétt á rúv.is. Óttast er um öryggi mjaldrana ef slæmt verður í sjóinn í þriggja tíma siglingu frá Þorlákshöfn.

Undirbúningur komu tveggja mjaldra frá Kína hefur staðið yfir síðan 2016. Forsvarsmenn Merlin Entertainment og góðgerðarsamtakanna Sea life Trust hafa skipulagt komu hvalanna til hins ítrasta. Mjaldrarnir hefja dvöl sína á Íslandi í hvalalauginni sem er partur af gestastofu Sea life trust og þaðan verða þeir fluttir í Klettsvík eftir um það bil tvo mánuði. Gert er ráð fyrir að flugvél með mjöldrunum innanborðs lendi í Keflavík klukkan hálf ellefu á þriðjudag og þaðan verða þeir fluttir með bíl í Herjólf sem siglir með þá til Eyja. Dýpið í Landeyjahöfn var mælt í gær og fullyrðir Vegagerðin að höfnin verði ekki komin í gagnið á þriðjudag, líklega ekki fyrir páska, þar sem veðurspá er mjög óhagstæð. Þar að auki er spáin fyrir þrjðjudag alls ekki góð.

Vissu ekki af lokun Landeyjahafnar
Samskiptafulltrúi Merlin Entertainment, Chloe Couchman, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að þessar upplýsingar væru nýtilkomnar og vinna væri í fullum gangi um hvort eitthvað þurfi að endurskoða. Móa Sigurðardóttir, samskiptafulltrúi CargoLux, sem hefur yfirumsjón með flutningunum í lofti, sagðist í samtali við fréttastofu telja að allt annað væri samkvæmt plani. Merlin Entertainment ætlar að veita frekari upplýsingar síðar í dag.