Það er víða leitað fanga á Kvikmyndahátíð sem Vestmannaeyjabær stendur fyrir dagana 8.-12. maí nk. Hátíðin hefst með setningu í aðalsal Kviku kl. 17.OO miðvikudaginn 8. maí og stuttmyndum af Vestmannaeyjum frá upphafi síðustu aldar þegar Vestmannaeyjabær sem við þekkjum í dag er að verða til. Á þessari fimm daga kvikmyndahátíð verður margt á boðstólnum eins og sjá má hér að neðan. Ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Miðvikudaginn 8. maí 2019, kl. 17.00 til 18:00
Vestmannaeyjabær að fæðast, lifandi myndir frá fyrri hluta 20. aldar. Arnar Sigurmundsson og Kristján Egilsson skýra það sem fyrir augu ber.

Sýndar verða stuttmyndir úr fórum Kvikmyndasafns Íslands og Safnahúss Vestmannaeyja. Elstu lifandi myndir sem vitað er um af Vestmannaeyjum og eru hinar elstu frá 1916. Eru þetta bæjarlífsmyndir, myndir af atvinnuháttum til sjávar og sveita og myndir af einstaklingum sem möguleiki er að bera kennsl á.

Þá verður sýnd stuttmynd Lofts Guðmundssonar rithöfundar sem var kennari í Vestmannaeyjum og önnur stuttmynd sem kennd er við Kjartan Guðmundsson ljósmyndara en báðar eru frá 1924.

Sýningu lýkur klukkan 18.00 þannig að allir komist á leik ÍBV og Hauka í handboltanum.