Í dag er sannanlega gleðidagur fyrir íbúa í Vestmannaeyjum en í dag er okkur afhentur nýr og glæsilegur Herjólfur hér í heimahöfn. Eftir þessum degi höfum við beðið í þó nokkurn tíma – en biðin er nú loks á enda!

Það er ánægjulegt og viðeigandi að ný ferja skuli afhent á 100. afmælisári Vestmannaeyjakaupstaðar.

Gamli Herjólfur, Herjólfur þriðji, hefur staðið sína plikt síðustu 27 árin eða frá því að hann kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum í júní árið 1992. Síðan þá hefur þetta öfluga skip þjónað íbúum og fyrirtækjum hér í eyjum með miklum sóma.

Við komu hvers nýs Herjólfs hafa skref verið stigin framávið í samgöngumálum í Vestmannaeyjum. Sá fyrsti fór þrjár ferðir í viku til Reykjavíkur, hálfsmánaðarlega til Hornafjarðar og á sumrin sigldi hann um helgar til Þorlákshafnar.

Með komu næsta Herjólfs árið 1976 voru teknar upp daglegar siglingar til Þorlákshafnar og sigldu þangað bæði Herjólfur annar og þriðji allar götur til ársins 2010 þegar Landeyjahöfn var opnuð.

Fyrir samfélagið hér í Eyjum eru tryggar og öruggar samgöngur á sjó lykilatriði fyrir íbúa og atvinnulíf. Herjólfur hefur allt frá árinu 1959 gengt þar lykilhlutverki, og mun gera það áfram inn í framtíðina.

Sá Herjólfur sem nú leggst í fyrsta skipti að bryggju í Vestmannaeyjum er sá fjórði sem ber það nafn. Nýja ferjan tekur mið af kröfum framtíðarinnar þar sem hún verður rafdrifin og bætist þannig við flóru fjölbreyttra skrefa sem stigin hafa verið hér í Vestmannaeyjum í átt að betri umgengni mannfólksins við náttúruna.

Við höfum sannarlega ástæðu til þess að fagna í dag. Það er bjart fram undan í Vestmannaeyjum og rík ástæða til þess að gleðjast á þessum tímamótum.

Skipstjórum og öðrum í áhöfn Herjólfs og öðru starfsfólki færi ég mínar innilegustu þakkir fyrir störf sín í gegnum árin og óska þeim, sem og Vestmannaeyingum öllum innilega til hamingju með nýtt og glæsilegt skip.

Vertu velkominn heim Herjólfur. Megi gæfan ávallt fylgja þér, áhöfn og farþegum þínum í ferðum yfir hafið og koma þín til Vestmannaeyja vera til framfara fyrir samfélagið hér í Eyjum.

Njáll Ragnarsson