Sveit GV gerði sér lítið fyrir og sigraði Golfklúbb Selfoss í dag í úrslitaleik sveitakeppni golfklúbba í 2. deild. Leikurinn var æsispennandi og réðust úrslitin ekki fyrr en á 18. holu þar sem Daníel Ingi Sigurjónsson átti glæsilegt högg inn á grín, setti innan við metra frá holu og kláraði púttið svo af öryggi fyrir sigri í sínum leik og þar með þriðja vinning GV. Áður höfðu þeir Karl Haraldsson og Sigurbergur Sveinsson sigrað fjórmenning og Lárus Garðar Long sigrað sinn leik örugglega. Mikil fagnaðarlæti brutust út meðal fjölmargra áhorfenda sem höfðu komið sér fyrir við átjánda grínið. Með þessum sigri tryggir GV sér sæti í 1. deild á næsta ári og óskum við strákunum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur! 


Á myndinni má sjá sveitina ásamt liðstjórunum tveimur. Frá vinstri: Einar Gunnarsson liðstjóri, Lárus Garðar Long, Rúnar Þór Karlsson, Hallgrímur Júlíusson, Gunnar Geir Gústafsson, Daníel Ingi Sigurjónsson, Karl Haraldsson, Sigurbergur Sveinsson, Kristófer Tjörvi Einarsson og Sigurður Bragason liðstjóri.