Settur ríkissaksóknari vísaði ábendingu um afdrif Geirfinns Einarssonar til frekari rannsóknar og meðferðar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum. Þar er málið enn og unnið að gagnaöflun. Teknar voru skýrslur af tveimur vitnum 2016 um meinta atburði í Vestmannaeyjum daginn eftir hvarf Geirfinns í Keflavík.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, settur ríkissaksóknari, sem falið var fyrr á árinu að taka afstöðu til rannsókna á tveimur ábendingum varðandi afdrif Guðmundar og Geirfinns Einarssona, hefur vísað ábendingu um hvarf Geirfinns til frekari rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum.

„Málið er enn í rannsókn,“ segir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum. Rannsóknin sé tafsöm vegna þess hve gamalt málið er en gagnaöflun standi yfir. Hún vill ekki tjá sig um málið að öðru leyti.

Ábendingin kom frá manni sem bar að hafa séð þrjá menn koma á smábáti til hafnar í Vestmannaeyjum 20. nóvember 1974, daginn eftir að Geirfinnur hvarf í Keflavík. Tveir þeirra hafi leitt þann þriðja á milli sín sem hafi verið máttfarinn og virst rænulítill.

Þeir hafi komið inn í verbúð þar sem sjónarvotturinn var staddur og dvalið þar dágóðan tíma í lokuðu herbergi með leyfi kokksins í mötuneyti fyrirtækisins, þar til þeir gengu aftur sömu leið til hafnar og um borð í trilluna.

Nokkru síðar hafi trillan aftur komið að bryggju og mennirnir tveir stigið frá borði. Þann máttfarna hafi hann ekki séð aftur. Mennina tvo hafi hann ekki séð aftur fyrr en nærri tveimur áratugum síðar austur á landi þar sem annar þeirra hafi verið að vinna í tengslum við lagningu háspennulínu fyrir Landsvirkjun.

Lögregla tók skýrslu af manninum og fyrrverandi sambýliskonu hans sem bar um líflátshótun sem þeim hefði borist símleiðis eftir umrædda atburði.

Vísir.is greindi frá