Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt heldur áfram. Á morgun, laugardag,  5. október kl. 13.00 mæta Addi í London og Sif í Geisla í Einarsstofu.

 

Addi í London hefur lengi verið með myndavélina á lofti og myndað viðburði, það sem er að gerast í atvinnulífinu, íþróttum og þjóðhátíð. Þá á hann einstakar fuglamyndir þar sem lundinn er í stóru hlutverki.

 

Addi verður með þverskurð af því sem hann hefur verið að gera í gegnum árin þar sem náttúra Eyjanna og fuglalíf og ekki síst lundinn verða í stóru hlutverki.

 

Færri þekkja það sem Sif hefur verið að gera og er því meira spennandi að fá að kíkja í safnið hennar. Sif vinnur í Geisla þar sem hún tekur á móti fólki með einhverju því  skærasta brosi sem fyrirfinnst í verslunum í Eyjum í dag.

 

Sif útskrifaðist frá Mynd- og handíðaskólanum  1998 og í framhaldi af því tók hún ljósmyndun fastari tökum og segist hún alla tíð verið að skapa og sjá það sérstaka í umhverfinu. „Margt af því sem ég sé set ég ósjálfrátt í ramma og tek upp myndavélina og smelli af,“ segir Sif.

 

Hún segir sýninguna vera sitt lítið af því sem hún hefur verið að gera. „Ég hlakka til að deila myndunum með fólki og vonast til að sjá sem flesta á í Einarsstofu á laugardaginn. Auðvitað er ég spennt en þetta verður gaman. Ég er viss um það.“